Skip to main content
Uncategorized

Andlegt ofbeldi í samböndum / samskiptum

By október 17, 2016apríl 18th, 2019No Comments

Hér er  pistill sem ég birti fyrir nokkrum árum og ég tel þörf á að hann birtist sem oftast. Deildu honum endilega til þeirra sem þú hefur trú á að þurfi að fá upplýsingar um hvað og hvernig þetta ofbeldi lýsir sér. Og athugið að þetta á ekki einungis við makasambönd heldur öll samskipti.

Grundvallarréttindi  í samböndum

Ef þú hefur búið við andlegt ofbeldi þá er ekki víst að þú hafir hugmynd um það hvernig heilbrigt samband lítur út. Evans, (1992) notar eftirtalin atriði sem viðmiðun fyrir þig.

Að eiga rétt á velvilja frá makanum. 

Að fá tilfinningalegan stuðning. 

Að hlustað sé á þig og brugðist við óskum þínum með kurteisi.

 Að fá að hafa eigin skoðanir þó svo að maki þinn hafi aðrar skoðanir

Að tilfinningar þínar og upplifanir séu samþykktar og virtar. 

Að vera beðin/n afsökunar á móðgandi eða særandi ummælum.

 Að fá hrein og bein svör við spurningum sem varða samband ykkar.

 Að vera laus við ásakanir og umvöndun.

Að vera laus við útásetningar og dóma. 

Að talað sé um störf þín og áhugamál af virðingu.

Að fá hvatningu.

Að vera laus við hótanir af öllu tagi, tilfinningalegar og líkamlegar. 

Að vera laus við reiðiköst og bræði.

Að sleppa við orð sem gera lítið úr þér.

Að vera beðin/n en ekki skipað fyrir.

Þekkir þú þessi einkenni?

Samkvæmt skilgreiningu University of Illinois er ofbeldi  öll sú hegðun sem miðar að því að ná stjórn á annarri manneskju í gegnum ótta, niðurlægingu, meiðandi orð, þögn eða líkamlegt ofbeldi. Andlegt ofbeldi er allt það sem hefur með andleg yfirráð að gera, allt frá því að nota særandi orð, sífelldar útásetningar eða aðrar aðferðir eins og hótanir, stjórnun,  og það að geta aldrei gert gerandanum til hæfis og að vera sett út í kuldann.

Ég mun í þessum pistli styðjast að hluta til við bækling sem gefinn út af Ráðgjafadeild háskólans í Illinois.

 

Myndir: Getty

Myndir: Getty

 

Það er fylgst með ferðum þínum og athöfnum og stjórnað hverja þú mátt umgangast.

Þegar búið er að heilaþvo þig í ákveðinn tíma með niðurlægjandi athugasemdum, „leiðbeiningum“ sem þú þarft svo sannarlega á að halda vegna þess að þú ert ekki nógu skynsöm/samur, gáfuð/aður, falleg/ur, og guð má vita hvað en þá lætur eitthvað undan að lokum.

Hvernig líður manneskju sem er búið er að heilaþvo í langan tíma, gera lítið úr, manneskju sem lifir við hótanir og býr í andlegu fangelsi? Þar sem búið er að ræna öllu sjálfstrausti, sjálfsvirði og jafnvel geðheilsunni…þar sem búið er að sannfæra manneskjuna um að hún eigi ekki skilið góða framkomu, kærleika, ást og umhyggju?

Það eru nokkur atriði sem vert er að hafa í huga þegar þú athugar hvort þú getir verið í samskiptum þar sem þú ert beitt/ur andlegu ofbeldi…( á við náin samskipti, parasamband)

Þú ert sjálfselsk/ur þýðir fyrir þann sem beitir andlegu ofbeldi t.d. Ekki segja mér að þú vogir þér að hafa þarfir, langanir og drauma!! Þitt hlutverk er aðeins að þjóna mér og mínum löngunum!!

Þú ert svo heimsk/ur þýðir að þegar ég segi við þig að þú sért heimsk/ur, þá líður mér eins og ég sé gáfaðari persónan í sambandinu.

Þú ert ljót/ur: Að segja þér að þú sért ljót/ur upphefur mitt gildi í sambandinu (þú mátt nú vera þakklát fyrir að hafa svona flottan mann/konu þér við hlið)

Þú ert feit/ur: Þegar ég set út á líkama þinn, þá fær það mig til að finnast ég vera kynþokkafyllri en þú.

Þú ert ekki nægjanlega ástrík/ur: Þú vogaðir þér að sýna eitthvað annað en skilyrðislausa aðdáun á mér.

Þú hagar þér eins og karlmaður/kona: Hvernig dirfist þú að hafa eigin hugsanir og skoðanir! Þú átt að vera sköpun mín og strengjabrúðan mín!

Þú skilur mig ekki: Þú átt að hafa ótakmarkaða samúð með mér og skilja hvað lífið hefur verið mér erfitt.

Þú styður mig ekki nógu vel: Þú styður mig ekki 200 % þegar ég hef rangt fyrir mér

Þú ert lélegt foreldri:  Ég er að leita að setningunni  sem særir þig mest…

Þú gerir ekki þetta og ekki hitt fyrir mig: Ég þarf á svo miklu miklu meiru að halda en þú getur gefið mér af tíma þínum, athygli, orku og reyndar öllu lífi þínu.

Enginn annar vill þig: Hún/hann er reiðileg/ur, ég ætti að minna á að hún/hann hafi engan annan stað til að fara á, og það að fara væri hryllileg heimska.

Ég er sko farin/n: Þú tekur ekki nógu vel eftir mér, þetta er  góð hótun sem fær þig til að endurhugsa framkomu þína við mig.

Þessar setningar eru teknar að hluta til frá síðu Annie Kasznina

 

Young_Girl_Is_A_Victim_Of_Abduction_Royalty-free_Image___Getty_Images___160189201

 

Árásagirni er eitt birtingaform andlegs ofbeldis þar sem notuð eru uppnefni og  ljót orð, ásakanir, líkamsmeiðingum og jafnvel dauða hótað.  Þar sem skipað er fyrir í stað þess að biðja.

Það eru líka til vægari birtingamyndir árásagirninnar, það er þegar stjórnað er með hjálpsemi, útásetningum, ráðgjöf og lausn boðin.  Oftast lítum við á þetta sem góða framkomu og hjálpsemi, en stundum er hjálpsemin þannig að það er gert er lítið úr þínum eigin hæfileikum  og getu til að leysa vandamálin, gerandinn telur þér  trú um að þínar niðurstöður og ákvarðanir séu heimskulegar og barnalegar…a.m.k. ekki nógu góðar og skynsamlegar. Þarna er hjálpsemin stjórnun.

Afneitun er önnur birtingamynd andlegs ofbeldis, það að neita að viðurkenna að sýn þín á hlutina sé rétt fyrir þig og afneitun á því að raunveruleikinn sem þú sérð er raunverulegur…Þar sem þú ert látin/n efast um að það sem þú heyrir sé rétt  og það sem þú sérð gerandann gera neitar hann fyrir og reynir  því að telja þér trú um að þér hafi missýnst. Afneitunin  getur líka falist í því að neita að hlusta á það sem þú hefur að segja, samskipti við þig hunsuð,  eða gerandinn dregur sig í hlé frá þér til að refsa þér fyrir eitthvað sem þú jafnvel hefur ekki hugmynd um að þú hafir gert.. svona „silent treatment“ framkoma eða þöggun.

Þessari birtingmynd er oftast beitt þegar gerandinn sér fórnarlambið sem framlengingu af sjálfum sér og afneitar skoðunum og tilfinningum sem eru ekki til samræmis við hann sjálfan. Stundum er gert lítið úr fórnalambinu með því að þér er sagt að  því að það sé  nú alltaf svo viðkvæmt, þoli ekki neitt, sé að ýkja eða blása allt upp..Þegar þessu er beitt,  er verið að segja fórnarlambinu að  tilfinningum þess og sýn sé ekki treystandi.

Þetta er mjög skemmandi, og fátt er eins skemmandi fyrir einstaklinginn eins og það að efast um að skynjun hans, tilfinningar og raunveruleiki  sé réttur.

 

Young_Couple_Having_A_Row_Royalty-free_Image___Getty_Images___imsis518-008

En af hverju lendum við í ofbeldissamböndum/samskiptum?

Enginn vill vera í ofbeldissambandi/samskiptum, en einstaklingar sem ólust upp við vanvirkar aðstæður  lenda oft í svipuðum aðstæðum sem fullorðnir einstaklingar. Ef foreldri þitt hafði tilhneigingu til að skilgreina reynslu þína og tilfinningar og dæma hegðun þína, hefur þú ekki lært að setja þér þín eigin mörk og þróa eigin skoðanir. Ekki lært að virða tilfinningar þínar og skynjun, Þannig að það er afar auðvelt fyrir gerandann að ná stjórn á þér. Og oft líður þér  hvergi betur en innan um gerandann hversu eyðileggjandi sambandið/samskiptin  annars eru. (því þú þekkir mynstrið svo vel frá fyrri tíð)

Þeir sem hafa verið beittir þeirri  misnotkun sem andlegt ofbeldi alltaf er, glíma oft við tilfinningar eins og  vanmátt, sársauka, ótta og reiði…Sem er hálfgerð kaldhæðni þar sem  gerendurnir eru oft að glíma við nákvæmlega sömu tilfinningar.

Líklegt er að gerendurnir hafi alist upp við tilfinningalegt óöryggi og þeir læra að nota árásagirnina til þess að takast á við sínar eigin vanmáttartilfinningar. Vegna þessa dragast gerendurnir oft að þeim sem eru hjálparvana, hafa ekki lært að meta tilfinningar sínar, viðhorf og skoðanir. Í slíkum aðstæðum nær gerandinn að vera öruggur og við stjórn, og þarf ekki að takast á við eigin tilfinningar og sjálfsskynjun.

Til að geta unnið sig út úr hringrás ofbeldisins, hvort sem það er gerandinn eða fórnarlambið þarf að skilja mynstur þau sem við ólumst upp við,  eða samskiptin sem við áttum í við þá sem höfðu sterk mótandi áhrif á líf okkar.

Oft eru gerendur ofbeldisins undirgefnir í vinasamböndum en beita maka sinn og börn ofbeldinu…

Með því að skilja og uppræta mynstrin þín í samskiptum getur þú varnað því að ofbeldið haldi áfram og þú getur farið að vinna þig frá því og fengið lausn inn í líf þitt. Ég hef hjálpað þeim sem lent hafa í þessum aðstæðum og þekki þær sjálf, þannig að ef þú þarft aðstoð við að komast frá andlegu ofbeldi þá endilega hafðu samband við mig með því að senda póst á linda@manngildi.is

Rjúfum vítahringinn!

Þar til næst elskurnar

Xoxo

Ykkar Linda

 

 

Pin It on Pinterest

Share This