Þessi saga sem ég fann á netinu var skrifuð af Rafael Zoehler, og mér fannst hún svo góð að ég ákvað að þýða hana og deila henni með ykkur. Það féllu nokkur tár hjá mér við lestur hennar:
’Dauðinn kemur alltaf á óvart. Enginn á von á honum. Ekki einu sinni þeir sem liggja á dauðadeildinni búast við honum, þeir halda alltaf að þeir eigi einn eða tvo daga eftir. Eða viku kannski, nema hvað að sú vika er yfirleitt næsta vika en ekki sú sem nú er. Við erum aldrei tilbúin. Það er aldrei réttur tími. Og þegar tíminn er kominn muntu uppgötva að þú ert ekki búinn að gera allt sem þú hefðir viljað vera búinn að gera. Endirinn kemur alltaf á óvart, og það er tárvot stund fyrir þá sem missa sína nánustu í dauðann og leiðindastund fyrir lítil börn sem skilja í raun ekkert hvað jarðarför þýðir (Guði sé lof fyrir það)
Það var aðeins öðruvísi með föður minn. Hans dauði kom meira á óvart en gengur og gerist. Hann dó þegar hann var aðeins 27 ára gamall. Hann var á sama aldri og margir af þeim frægu tónlistarmönnum sem dauðinn hefur heimtað vegna óhóflegs lífernis. Hann var ungur. Allt of ungur. Hann var ekki tónlistarmaður sem lifði hátt og hann var ekki frægur.-Krabbinn velur sér ekki fórnarlömb eftir aldri. Hann dó þegar ég var mjög ungur og ég lærði hvað orðið jarðaför þýddi vegna dauða hans. Ég var 8 og hálfs árs, nógu gamall til að sakna hans alla ævina. Ef hann hefði dáið þegar ég var yngri hefði ég ekki átt minningarnar um hann og hefði ekki þurft að upplifa þjáningar þær sem þær ollu mér. En þá hefði ég ekki heldur átt pabba í lífi mínu, og svo sannarlega átti ég góðan pabba. Pabba sem var bæði ákveðinn og skemmtilegur. Sem sagði brandara áður en hann setti mig í skammarkrókinn vegna þess að þá leið mér ekki alveg jafn illa þar. Hann kyssti mig á ennið áður en ég fór að sofa. -Vani sem ég færði yfir á mín eigin börn. Hann neyddi mig til að halda með sínu fótboltaliði og útskýrði hlutina betur en mamma gerði. Hann var pabbi sem mikill söknuður var af.
Hann sagði mér aldrei að hann væri að fara að deyja. Jafnvel þegar hann lá á sjúkraúsinu með slöngur um allt sagði hann ekki orð um það. Faðir minn gerði hinsvegar plön fyrir næsta ár jafnvel þó að hann vissi að hann yrði ekki ekki hér næsta mánuðinn hvað þá meira. -Næsta ár ætluðum við að fara í veiðitúr, ferðast og sjá staði sem við höfðum aldrei áður séð. Næsta ár yrði algjörlega frábært ár.
Við lifðum saman í þeim draumi.
Ég trúi- eða í raun er ég alveg viss- hann hélt að þetta færði honum vellíðan. Hann var hjátrúafullur maður. Með þvi að hugsa um næsta ár hélt hann von sinni á lífi. Hann fékk mig líka til að hlæja með sér allt til enda. Hann vissi að endirinn var nærri en sagði mér það ekki og sá mig aldrei gráta vegna hans.
Allt í einu var næsta ári lokið löngu áður en það hafði tækifæri til að láta sjá sig.
Mamma náði í mig í skólann og við forum á spítalann. Læknirinn bar okkur fréttirnar eins mildilega og hægt var. Mamma grét. Hún hafði haldið í von sem nú dó. Eins og ég sagði áður, allir halda í vonina allt til enda.
Ég fann fyrir högginu. Hvað þýddi þetta? Var þetta ekki bara venjulegur sjúkdómur sem væri læknaður með einföldum sprautum? Ég hataði þig pabbi á þessari stundu. Mér fannst ég svikinn. Ég öskraði af reiði á sjúkrahúsinu, alveg þangað til að ég uppgötvaði að pabbi var ekki lengur þarna til að setja mig í skammarkrókinn vegna látanna í mér. -Ég grét.
En þá varð pabbi minn enn á ný pabbi minn. –
Hjúkrunarkona kom gangandi með skókassa undir hendinni til mín og huggaði mig. Skókassinn var fullur af lokuðum umslögum með skrifuðum setningum þar sem heimilisföngin eru venjulega rituð. Ég skildi ekki alveg hvað þetta táknaði en hjúkrunarkonan rétti mér bréf sem hún tók upp úr kassanum. “Pabbi þinn bað mig um að afhenda þér þetta bréf. Hann notaði alla síðustu viku í að skrifa öll þessi bréf og hann vill að þú lesir þetta bréf hérna núna. Vertu sterkur sagði hjúkrunarkonan og hélt í hendi mína.
Á þessu umslagi stóð “Þegar ég er farinn” og ég opnaði það.
Sonur minn,
Ef þú ert að lesa þetta bréf táknar það að ég er dáinn. Mér þykir það svo leitt. Ég vissi að ég ætti að deyja. Ég vildi ekki segja þér hvað væri framundan vegna þess að ég vildi ekki sjá þig gráta. Og mér virðist hafa tekist það ætlunarverk mitt. Ég held að sá sem er við það að deyja hafi smá rétt á því að sýna örlitla eigingirni.
En eins og þú veist þá á ég eftir að kenna þér svo margt. Þú ert svo ungur að þú veist eiginlega ekki neitt svo að ég ákvað að skrifa þér þessi bréf ölll. Þú mátt ekki opna þau fyrr en rétta stundin er til þess, Ok? Það verður að vera samkomulag á milli okkar sem þú mátt ekki svíkja.
Ég elska þig. Hugsaðu vel um mömmu þína því að þú ert húsbóndinn núna.
Ástarkveðja, Pabbi
PS: Ég skrifaði ekki bréf til mömmu þinnar, hún fékk bílinn J
Honum tókst að fá mig til að hætta að gráta með sinni lélegu skrift. Það var ekki í boði á þessum tíma að prenta úr tölvu eins og nú er. Ljóta skriftin hans sem ég varla skildi gaf mér samt frið og fékk mig til að brosa þrátt fyrir áfallið. Þannig var faðir minn. (Samanber brandarana sem hann sagði áður en hann setti mig í skammarkrókinn).
Skókassinn varð það dýrmætasta sem ég átti í veröldinni. Ég bað mömmu um að opna hann ekki. Þessi bréf voru mín og enginn annar mátti lesa þau. Ég kunni allar setningarnar sem skrifaðar voru á umslögin utanað. Og það tók tíma fyrir þá lífsviðburði að gerast sem rituð voru þar. Og ég gleymdi kassanum.
Sjö árum seinna, eða þegar við fluttum á nýjan stað vissi ég ekki hvar kassinn hefði lent. Ég gat ekki munað hvert ég hefði sett hann. Oftast þegar við munum ekki svona hluti er það vegna þess að þeir skipta okkur litlu máli. En þegar eitthvað gleymist í minni þínu, þýðir það ekki að þú sért búinn að týna því í raunveruleikanum heldur er þetta svipað og með smámyntina í vösum okkar sem er bara þarna en við hugsum ekki um hana. Og þannig var það með mig og skókassann.
Ég komst á unglingsárin, mamma fékk sér nokkra kærasta og ég skildi það vel. En hún gifti sig aldrei aftur. Ég veit ekki afhverju, en vill trúa því að pabbi hafi verið ást lífs hennar. En þessi kærasti sem hún var nýbúin að hitta var einskis virði í mínum augum. Mér fannst hún gera lítið úr sjálfri sér með því að vera að hitta þennan mann. Hún átti svo miklu meira skilið en einhvern lúða sem hún hitti barnum. En ég man ennþá kinnhestinn sem ég fékk þegar ég sagði henni það. Ég viðurkenni að ég átti þann kinnhest fyllilega skilið. En þegar hún sló mig mundi ég eftir skókassanum góða og bréfunum sem þar voru. Ég mundi eftir bréfi sem á stóð ” þegar þú lendir í alvarlegasta rifrildinu við mömmu þína” Ég leitaði um allt herbergi að kassanum og fann hann loksins í tösku sem lá efst í fataskápnum mínum. Þegar ég fór í gegnum bréfin sá ég að ég átti eftir að opna “þegar þú kyssir í fyrsta sinn” og ég fylltist skömm á sjálfum mér fyrir að hafa gleymt þessu og ákvað að það yrði næsta bréf sem ég myndi opna. Næsta bréf þar á eftir var “ þegar þú missir sveindóminn” og ég man að ég vonaðist til þess þá að það yrði fljótlega. En loksins fann ég það sem ég leitaði að, eða rifrildisbréfinu. Og þar stóð:
Svona farðu og biddu hana fyrirgefningar!
Ég veit ekki afhverju þið eruð að rífast og ég veit ekki hvort ykkar hefur rétt fyrir sér. En ég veit að hún er móðir þín svo farðu í auðmýkt og biddu hana afsökunar, það er besta leiðin til að komast yfir þetta. Ég er ekki að segja þér að fara niður á hnén en hún er mamma þín strákur, og elskar þig meira en allt annað. Veistu, hún eignaðist þig með náttúrulegum hætti vegna þess að einhver sagði henni að það væri best fyrir þig? Hefurðu einhverntíman séð konu fæða barn? Þartu stærri sönnun fyrir ást hennar en þá að hún lagði þetta á sig?
Svo biddu hana fyrirgefningar, hún mun fyrirgefa þér.
Ástarkveðja,
Pabbi
Faðir minn var ekki frábær rithöfundur, hann var bara bankagjaldkeri. En orð hans höfðu mikil áhrif á mig og þau voru þrungin visku sem 15 ára drengur átti ekki til.
Ég hljóp inn í herbergi mömmu og opnað dyrnar. Ég grét þegar hún sneri sér að mér og horfði í augu mín. Hún grét einnig. Ég man ekki hvað hún sagði en líklega hefur það verið eitthvað á þá leið “hvað viltu?” en það sem ég man var að ég hélt á bréfinu sem faðir minn hafði skrifað þegar ég gekk til hennar og skreið í fang hennar. Hún huggaði mig og við þögðum bæði. Bréf föður míns fékk hana til að hlæja stuttu seinna. Við sættumst og töluðum aðeins um pabba. Hún sagði mér frá sérvitrum háttum hans eins og þeim að borða jarðaber með salami. Einhvernvegin fannst mér eins og hann væri þarna með okkur á meðan við vorum að tala um hann. Ég, mamma og hann, smá partur af honum á blaðsnepli. Og mér leið vel.
En það leið ekki á löngu þar til að ég opnaði ’Þegar þú missir sveindóminn”
Til hamingju sonur sæll.
Ekki hafa áhyggjur, þetta lagast með tímanum. Þetta er alltaf ómögulegt í fyrsta skiptið. Ég missti sveindóminn með ljótri konu sem var þar að auki vændiskona.
Mesta áhyggjuefnið mitt er að þú munir spyrja mömmu þína hvað orðið sveindómur þýði eftir að hafa lesið utan á umslagið.
Ástarkveðja,
Pabbi
Pabbi fylgdi mér allt lífið. Hann var með mér þó að hann væri ekki á meðal okkar. Orð hans gáfu mér það sem ekkert annað gat gefið mér. Þau gáfu mér styrk til að sigrast á hverri áskoruninni á fætur annarri í lífinu. Hann virtist alltaf geta fengið mig til að brosa þegar lífið var ekki gott og opnaði oft augu mín fyrir lausnum þar sem ég fann engar.’Þegar þú giftir þig’ bréfið var mjög tilfinningaþrungin lesning fyrir mig en þó ekki jafn tilfinningaþrungin og bréfið ’Þegar þú verður faðir’.
Nú skilur þú hvað raunveruleg ást er elsku sonur. Þú munt gera þér grein fyrir því hversu mikið þú elskar konuna þína, en hina sönnustu ást muntu finna þegar þú horfir á þessa litlu mannveru sem er komin inn í líf þitt. Ég veit ekki hvort þetta verður strákur eða stelpa, ég er liðið lík en ekki spámaður 🙂
Skemmtu þér vel í þessu hlutverki, þetta er frábært. Tíminn mun fljúga frá þér svo vertu viss um að vera til staðar. Ekki missa af einu einasta augnabliki því að þau koma ekki aftur. Skiptu á bleyjum, baðaðu barnið og vertu fyrirmynd fyrir það. Ég held að þú hafir það sem þú þarft að hafa til að vera frábær faðir, alveg eins og ég.
Sársaukafyllsta bréfið sem ég las innhélt fæstu orðin. Þegar hann skrifaði þessi fjögur orð hugsa ég að hann hafi þjáðst jafn mikið við að skrifa þau og ég við að lesa þau. En seint og um síðir lagði ég í að opna þetta bréf sem á stóð ’Þegar móðir þín er farin’:
Hún er mín núna.
Brandari. Sorgmæddur trúður að fela líðan sína með brosgrímunni. Þetta var eina bréfið sem hann hafði skrifað sem fékk mig ekki til að brosa, en ég gat skilið ástæðuna fyrir brandaranum. Ég hafði alltaf staðið við samkomulagið sem við pabbi gerðum, ég hafði aldrei lesið þessi bréf fyrir nokkurn mann. Ég beið alltaf eftir næsta atburði, næsta bréfi.
En næsta bréf innihélt lexíu sem furðulegt er að 27 ára gamall maður geti kennt einhverjum sem er orðinn 85 ára eldriborgari.
En núna þegar ég ligg í sjúkrarúmi mínu með slöngur út um allt vegna krabbans sem hefur náð yfirhöndinni, þreifa ég á snjáðu bréfi sem er síðasta óopnaða bréfið sem faðir mann skrifaði mér. Setningin á umslaginu ’Þegar þinn tími kemur’ er varla sýnileg berum augum.
Mig langar ekki að opna þetta bréf, ég er hræddur. Ég vill ekki trúa að minn tími sé að nálgast. Þetta er spurningin um vonina manstu? Enginn trúir því í alvöru að hans tími sé kominn.
Ég tek djúpan andardrátt og opna bréfið.
Halló elsku sonur. Ég vona að þú sért orðinn háaldraður núna.
Veistu, þetta bréf var auðveldast að skrifa, og það var einnig það fyrsta sem ég skrifaði. Þetta bréf leysti mig undan þeirri þjáningu að vera að missa þig. Ég held að hugur þinn verði skýrari þegar þú ert svona nálægt enda lífsins. Það er auðveldara að tala um dauðann.
Síðustu daga mina hér á jörðu hugsaði ég mikið um það líf sem ég hafði átt. Ég átti stutt líf en mjög hamingjuríkt. Ég var pabbi þinn og maður móður þinnar. Hvað gat ég farið fram á meira en það. Þessi hugsun gaf mér frið í hjarta mitt. Nú hvet ég þig til að hugsa þessu líkt.
Og mig langar að segja við þig elsku sonur, ekki vera hræddur.
PS: Ég sakna þín.
Þýtt og endursagt af Linda Baldvinsdóttur- Markþjálfa linda@manngildi.is