Skip to main content

Umhyggja á óvissutímum

Á síðustu misserum höfum við Íslendingar svo sannarlega sýnt og sannað að við erum stórasta þjóð í heimi þegar kemur að því að sýna umhyggju gagnvart okkar samlöndunum á erfiðum tímum.

Við höfum sungið fyrir þá eldri sem einangruð eru, við höfum sungið fyrir hvert annað og við höfum sungið fyrir þá sem veikir eru. Við höfum dansað,djókað,farið út í búð fyrir nágranna okkar og við höfum þvegið okkur og sprittað allt í nafni umhyggjunnar.

Hversu fagurt er þetta ekki?

Þetta sýnir svo vel okkar þjóðareinkenni þegar á bjátar, þar erum við sem einn maður að vinna að heill allra með umhyggju, samkennd og hæfileikum okkar á hinum ýmsu sviðum.

Við höfum gefið gjafir eins og hugleiðslur, leikfimi, Jóga, dans, námskeið, fría tíma í allskonar aðstoð og við gerum það af svo miklum kærleika að ég eiginlega kemst bara við og fyllist svo miklu stolti af okkar landsmönnum.

Núna virðist eins og bylgja númer eitthvað af Covid sé að skella á okkur eða Delta 2 afbrigðið og við erum orðin örþreytt á óörygginu, einangruninni og öllu því sem fylgir þessu ástandi en getum þó ekki gefist upp fyrir því.

Þegar við stöndum frammi fyrir aðstæðum sem þessum þá held ég að það sé gott fyrir okkur að hafa í huga að umhyggja og umhugsun um náunga okkar virðast vera þeir þættir  sem bæta helst geð okkar og hamingju samkvæmt öllum rannsóknum sem ég hef rekist á.

Umhyggjan minnkar streitu og hættu á sjúkdómum á sama tíma svo nýtum okkur allt það fallega sem við eigum í hjarta okkar til að gera þessa tíma bærilega í stað þess að ráðast gegn hvort öðru og pirrast ógurlega. Engu að síður er það staðreynd að við erum á stað undirliggjani kvíða þó að við gerum okkur ekki endilega grein fyrir því og verðum þar af leiðandi uppstökk og þráðurinn verður oft styttri. Álag er einnig á mörgum og streitan nærri svo að við þurfum að passa okkur svolítið og skoða líðan okkar.

Munum að við erum mannlegar verur sem þurfum þessa nánd og umhyggju, faðmlög og vináttu við hvert annað og það er auðvelt að gleyma því að sinna því gagnvart þeim sem standa hjarta okkar nærri með einhverjum hætti.

En hvað getum við gert fyrir hvert annað til að létta þessa tíma þar sem nándin þarf að víkja og við erum orðin þreytt á sífelldum breytingum til og frá og vitum ekkert hvað morgundagurinn ber í skauti sér?

Í fyrsta lagi ættum við að huga að þeim sem í innsta hring okkar eru og muna eftir þeim alla daga, ekki bara á Sunnudögum, páskum og jólum.

Í öðru lagi ættum við að hafa þá í huga sem búa einir eða hafa lítinn eða engan félagslegan stuðning, tökum bara upp símann og hringjum í þá.

Í þriðja lagi þá getum við haft online hittinga af ýmsum toga, saumaklúbb,  og t.d hef ég nokkrum sinnum farið í leiki með barnabörnunum á netinu og átt þannig samfélag við þau þegar ég hef ekki viljað taka sénsinn á því að hitta þau vegna veikinda öðru hvoru megin.

Í fjórða lagi getum við sent óvæntar gjafir eins og blóm og súkkulaði til þeirra sem við vitum að eru einmanna eða í sóttkví og glatt þannig hjarta þeirra.

Í fimmta lagi þá getum við sent textaskilaboð til þeirra sem okkur þykir vænt um þar sem við segjum eitthvað krúttlegt og sætt við þá í byrjun dagsins, það léttir daginn hjá mörgum að fá þannig skilaboð.

Í sjötta lagi þá ættum við að nota ímyndunaraflið okkar til að finna upp það sem ætti að vera í sjöunda lagi hér fyrir neðan.

Finnum allt sem gleður og hjálpar styður okkur í leiðinni til gleðilegra lífs og sáttar við okkur sjálf og samferðafólkið okkar.

Svo tæklum þessa nýju stöðu okkar með æðruleysið að vopni og kærleikann að leiðarljósi elskurnar, það skilar alltaf góðum árangri að lokum ásamt því að við fáum  betra sjálfstraust og heilsu í bónus.

Með kærleikskveðju og fullri trú á okkur íslendingum í þessari herferð við Delta 2 eins og öll hin afbrigðin og verum dugleg að deila þessu og öllu því sem við finnum jákvætt og uppbyggjandi á netinu svo að umhyggjan dreifi sér sem víðast um landið og miðin.

Kærleikskveðja,

Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, Samskiptaráðgjafi og TRM þjálfi.

Pin It on Pinterest

Share This