Skip to main content

Erfiðleikar eru hluti af lífinu sem við lifum og öll fáum við verkefni sem eru okkur stundum það erfið að þau reyna á allt sem við eigum, og þau ná stundum að beygja okkur eða brjóta.

Þó er því þannig farið að í erfiðleikunum leynast sprotar að nýjum tækifærum ef við leyfum okkur ekki að falla í gryfju sjálfsvorkunnarinnar.

Ég geri mér grein fyrir því að sum verkefnin sem við fáum til úrlausnar skapa stundir þar sem við eigum einfaldlega bágt og eigum erfitt með að standa upp og fara áfram veginn. Á þeim stundum er um að gera að leyfa sér klapp á bakið og viðurkenna tilfinningarnar,jafnvel leita aðstoðar við upprisuna frá þeim verkefnum.

Hinsvegar eru sum verkefnin sem við fáum þannig vaxin að við einfaldlega eflumst og þroskumst við að leysa úr þeim.

Þau verkefni sem færa okkur á nýja staði í tilveru okkar geta orðið okkur til mikillar gæfu ef við vinnum rétt úr þeim. Og ef við sýnum seiglu og þrautseigju á leiðinni í gegnum þau þá sjáum eftir á að þau voru einmitt það sem við þurftum að fá í fangið til að líf okkar gæti orðið gæfuríkara eða öflugra með einhverjum hætti.

Leiðin sem við förum í lífinu og veljum hverju sinni færir okkur á staðina sem við erum stödd á í dag og ábyrgðin er okkar ef við viljum breyta þeim stöðum.

En við viljum stundum fyrra okkur ábyrgðinni á eigin lífi og gefumst oft upp allt of fljótt sem verður til þess að við uppskerum ekki ávextina sem við viljum þó sjá í lífi okkar. Góðir hlutir gerast hægt og rólega í flestum tilfellum en ekki á drive trough hraða skyndibitastaðanna og það er gott að hafa það í huga þegar okkur finnst að við ættum að gefast upp.

Tækifæri lífsins eru mörg og við sjáum að þrátt fyrir fötlun og veikindi eru ýmsir sigrar sem fæðast í þeim kringumstæðum og eru Olympiuleikar fatlaðra til marks um sigurvilja og þrautseigju í andstreymi lífsins eitt sem vert er að nefna þegar við tölum um erfiðleika og hvernig við yfirstígum þá.

Ef hægt er að yfirstíga erfiðleika fötlunar hvað getum við þá gert þegar við erum heil heilsu, ung með allt lífið framundan eða erum einfaldlega á lífi?

Jafnvel á mínum frábæra aldri eru ýmis tækifæri í boði og ég las einmitt um daginn að flestir fengju viðurkenningu fyrir afrek sín og störf á aldursbilinu 50- 80 ára! Og kannski þegar við hugsum út í það þá er því líklega þannig farið hjá mörgum vegna þess að æfingin og mistökin skapa meistarann!

Mig langar að setja hér inn sögu af  Jim nokkrum Thorpe. Jim sem var frá Oklahoma í USA  tók þátt í  Ólympíuleikunum 1912 sem fulltrúi Bandaríkjanna í frjálsíþróttum.

Að morgni keppnisdagsins var skónum hans Jim stolið. En sem betur fer fann hann tvo skó af sitthvoru taginu í ruslatunnu í nágrenninu.  Annar skórinn var allt of stór svo hann varð að vera í aukasokkum til þess að passa í hann. En með þessa skó á fæti vann Jim tvenn gullverðlaun þennan dag. Mér finnst þessi saga fullkomin áminning til okkar um að hætta að leita að afsökunum sem halda aftur af okkur og því lífi sem við viljum lifa og fara bara og finna lausnir á þeim verkefnum sem við er að eiga hverju sinni. Það er sama hversu fáránlegar þær lausnir gætu virst í fyrstu þá gætu þær samt virkað með sama hætti og skórnir hans Jim virkuðu þennan örlagaríka dag 1912.

Við fáum líklega minna af sanngirni en ósanngirni í lífinu og öll eigum við einhverjar sögur sem við getum sagt frá í því sambandi, en hvað ætlum við að gera við því?

Ætlum við að láta fall í skóla, skilnað, sambandsslit, atvinnumissi,gjaldþrot og fl. ræna okkur gæðum lífsins sem bíða einfaldlega eftir því að við hættum að finna afsakanir fyrir stöðunni eins og hún er? Eða ætlum við að fara þess í stað að leita að lausnum og sigurstundum lífsins?

Veðrið á Íslandi sýnir okkur svo sannarlega að það eru fleiri leiðindadagar í veðri hér en sólardagar og kannski er lífið einfaldlega líka þannig. Og ef við getum fundið okkur leiðir til ánægju jafnvel á verstu veðradögum landsins þá getum við einnig gert það þegar leiðindaverkefni lífsins dynja á okkur.

Hin leiðin sem við getum valið okkur er svo innilega leiðinleg en allt of margir velja hana samt, en hún er sú að kenna öllu og öllum um ófarirnar og framtaksleysið, og skrifa svo orðfagra sjálfsvorkunnarbálka um það á samfélagsmiðlunum. Ég vona að það sé ekki sú leið sem við viljum fara, amk fæst okkar.

Munum bara elskurnar að öll él styttir upp um síðir og nýjar dyr opnast ef við bara bönkum á þær. Og ef við erum of lítil til að ná upp í dyrahamarinn þá er bara að fara og finna koll til að standa upp á.

Gleðilegt sumar til ykkar allra elskurnar,

Ég vona svo innilega að þú lesandi góður leitir leiða að þeirri gullnámu sem færir þér sólskin, þroska og gleði inn í líf þitt alla daga, og getir sagt við sjálfan þig þegar lífinu lýkur – „ég sé ekki eftir neinu af því sem ég valdi á þessu ferðalagi“

Þar til næst elskurnar,

Xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This