Skip to main content

Aðal umræðuefnið í dag er nauðgunarmenningin, framkoma karla við konur og virðingaleysið sem konum hefur verið sýnd í gegnum tíðina, og það verður ekki liðið lengur segja konur dagsins í dag.

Ég skrifaði pistil fyrir all mörgum árum um klám og kynlífsfíkn og finnst kominn tími á endurbirtingu hans ásamt dassi af lagfæringum á honum vegna þjóðfélagsumræðunnar, og fannst ágætt að skoða eitthvað af þeim ástæðum sem geta verið fyrir henni að mínu mati og kalla ég til nokkra rannsóknaraðila á félagslegri mótun einstaklinga mér til halds og trausts í þessum pistli.

Klám og kynlífsfíkn er ört vaxandi í okkar þjóðfélagi ásamt netfíkninni og þessar þrjár fíknir eru líklega þær fíknir sem við þurfum mest að eiga við í framtíðinni ef ég hef rétt fyrir mér.

Unga kynslóðin er kölluð klámkynslóðin og það með réttu. Klám flæðir yfir internetið og ef þú gúgglar orðið sex koma upp óteljandi möguleikar á skömmum tíma(Um það bil 3.880.000.000 niðurstöður (0,47 sekúndur) og aðgangur ungmenna að þessu efni er allt of greiður því miður.

Ég á t.d. ömmudreng á fermingaraldri sem segir að það sé sko ekkert mál að komast inn á þessar síður og hann segir að jafnvel poppi upp gluggar með slíku efni þegar verið er að leita að einhverju allt öðru á netinu.

Klámsíður og síður eins og Only Fans (sem er nýjasta síðan á markaðnum þar sem þú getur gerst áskrifandi að klámi hjá þeim sem selja það á lokuðum reikningum sínum þar) eru illa til þess fallnar að mínu mati að efla og bæta virðingu kynjanna fyrir hvort öðru nema síður sé, og þær eru einnig til marks um hætturnar sem leynast í notkun internetsins.

Það versta og sorglegasta við klámið er auðvitað það að efnið sem ungmennin okkar sjá gefa þeim kolranga mynd af raunveruleikanum í kynlífi flestra sem það stunda.

Ekki bætir það svo úr þegar kynlífsfræðsla í skólum er byggð upp á því að við getum prófað allt, hversu hættulegt sem það er samanber umræðuna að undanförnu.

Ég reikna ekki með að í þeim kennslustundum sé vitnað í rannsóknir þar sem sýnt er fram á að t.d endaþarmsmök geti valdið bakteríum í legi kvenna og valdið í sumum tilfellum ófrjósemi hjá konum, og kvensjúkdómalæknar hafa töluverðar áhyggjur af þessari stöðu mála veit ég, en nei nei betra er greinilega talið að kenna þeim réttu aðferðirnar við að stunda mök af þessu tagi.

Mér skilst nefnilega á umræðunni að unglingar þurfi víst að prófa allt og þá er betra að samþykkja allt frekar en að segja einfaldlega að eitthvað sé bannað og eða skaðlegt fyrir þau. Líklega er það vegna þess að við erum upptekin af því að vera vinir barnanna okkar í uppvextinum í stað þess að kenna þeim að bera virðingu fyrir lífi sínu og líkama og setja þeim mörk sem þau innleiða síðan inn í sína tilveru. (Vináttan kemur svo þegar þau fullorðnast)

Nýjasta dæmið sem ekki má setja útá hefur með kyrkingar í kynlífi að gera. Aðferð sem er mjög vinsæl hjá morðingjum þegar þeir murka lífið úr fórnalömbum sínum og hefur hingað til talist stórhættuleg athöfn, en nei endilega kennum blessuðum börnunum hvernig við getum verið örugg þegar við prófum að kyrkja aðra manneskju í kynlífsathöfnum í stað þess að segja bara „svona gerum við ekki krakkar mínir því að það er stórhættulegt og getur valdið dauða!“

Það er talað um að samþykki ætti að vera fyrir því sem gert er sem er gott og vel, en þá langar mig að nefna að það hefur verið talað um það í umræðunni að valdamunur geti verið ástæða fyrir ýmsu af því sem birst hefur á síðum fjölmiðla að undanförnu,og því skildi það ekki einnig geta átt við í tilfelli unga fólksins og „samþykkisins“ sem þau veita?

Vinsæli strákurinn í boltanum, hljómsveitinni, samfélagsmiðlastjarnan og svo framvegis sem stelpan/strákurinn á erfitt með að segja nei við vegna „valdamismunar“ getur alveg átt við unglinga jafnt sem hálf-fullorðið eða fullorðið fólk. Vandamálið er þó að unglingarnir okkar eru ekki komnir með fullan þroska og heili þeirra ekki fullmótaður þannig að kannski geta þau ekki tekið ákvarðanir byggðar á rökrænu framtíðarsamþykki við athöfnunum, og þar þurfum við að vera búin að segja þeim hvað er hættulegt eða skaðlegt fyrir sjálfsmynd þeirra, líf og limi.

Þessar tvær kynlífsaðferðir sem ég nefndi hér að framan eru afleiður af klámáhorfi sem kallar alltaf á eitthvað meira, eitthvað sífellt grófara á meðan  nándin og ástin er látin mæta afgangi.

Fyrir nokkrum árum kom til mín ung stúlka sem sagði við mig í einum af okkar tímum „Linda hvers vegna er ekki verið að kenna okkur það sem þú ert að kenna í stað þess að kenna okkur hvernig við eigum að stunda endaþarmsmök?“ Og ég segi eins og hún, já hvers vegna ekki, og hvers vegna má ekki segja að eitthvað sé hættulegt og utan við það sem er ásættanlegt í kynlífi krakka sem eru í mótun?

Mér er nokk sama hvað FULLORÐNIR einstaklingar gera í sínu kynlífi svo framarlega sem samþykki er fyrir því frá viðkomandi aðilum, en mér er ekki sama þegar þeir sömu og fordæma nauðgunarmenninguna láti svona frá sér í kennslustofum unglinga eða barna sem ættu að stíga sín fyrstu spor á kynlífsbrautinni á heilbrigðan fallegan, sakleysislegan hátt, en ekki með að prófa eitthvað sem telst til ofbeldis eða getur valdið skaða á kynfærum þeirra. Með svona kennslu erum við að normalisera það sem skaðlegt er.

Hvar ætlum við að stöðvast í kennslu barnanna sem gætu haft langanir til að prófa eitt og annað á leið sinni að þroska?

Kennum við þeim næst hvernig á sprauta sig með fíkniefnum vegna þess að þau munu hvort sem er kannski prófa það og þar af leiðandi nauðsynlegt fyrir þau að vita hvernig það er gert? Eða dettum við í það með þeim til að kenna þeim hvernig á að drekka áfengi? Kennum við þeim að reykja gras og tóbak þannig að þau brenni sig ekki á vankunnáttu í þessum málum? Kaupum við handa þeim byssur í stað þess að banna þeim að fara inn í hættuleg hverfi stórborga?

Nei ég vona að við áttum okkur á því að það að setja heilbrigð boð og bönn er gert til að verja börnin okkar frá því sem gæti skaðað þau til frambúðar og við þurfum ekki að vera í meðvirkni með öllum straumum og stefnum sem þau mæta á leið sinni til þroska.

Ég veit að þessi pistill minn mun vekja upp hörð viðbrögð hjá sumum en það verður þá bara að hafa það, ég nenni ekki að vera lengur í meðvirkni með þessari umræðu sem mun fátt gott leiða af sér!

En snúum okkur núna að klám og kynlífsfíkninni sem við munum sjá aukast töluvert á komandi tímum (Ég þori að fullyrða það):

Öll fíkn þróast smá saman og það gerir klám og kynlífsfíknin einnig. Kynlíf kallar fram örvun, slökun og vímu sem er ávanabindandi, en telst ekki fíkn fyrr en að hugurinn er fullur af órum flesta ef ekki alla daga og er farin að valda einstaklingnum andlegri/líkamlegri vanlíðan ásamt því að raska daglegu lífi þeirra verulega.

Klámfíknin byrjar oft sakleysislega. Forvitni sem smá saman eykst þar til að hún verður að einhverju sem þarf að prófa sig áfram með, sífellt grófara klám og meira af því. Hugurinn er meira og minna fullur af hugsunum um kynlíf í öllum þess myndum, grófari og grófari eftir því sem fíknin vex og að lokum veldur hún verulegum vandamálum í einkalífinu, atvinnulífinu og sálarlífinu.

Samkvæmt grein sem ég fann á doktor.is er kynlífsfíkninni skipt niður í 11 flokka sem eru eftirfarandi.

 1. Kynórar.
 2. Daðurkynlíf.
 3. Kynlíf með ókunnugum.
 4. Borgað fyrir kynlíf.
 5. Sala á kynlífi.
 6. Gægjukynlíf.
 7. Sýnikynlíf.
 8. Kynferðisleg áreitni/ nauðgun.
 9. Kvalalosti.
 10. Munalosti.
 11. Kynlíf með börnum.

Samkvæmt þessari sömu grein beita fáir fíklar sér aðeins að einum flokki. Flestir eru með blöndu af þremur til fjórum flokkum og sumir allt upp í sex eða sjö. Fíklar eiga sér þó alltaf uppáhaldshegðun eða blöndu af hegðun. (Tilvitnun í grein lýkur).

Mér hefur þótt forvitnilegt að skoða samspil á milli glæpa eins og nauðgana og annarra glæpa í tengslum við klámáhorf eftir að ég sá síðasta viðtalið sem tekið var við fjöldamorðingjann Ted Bundy. https://www.youtube.com/watch?v=08dpnn0cd10&t=6s en Þar lýsir hann því vel hvernig hans kynlífsfíkn þróaðist og hvernig hann þurfti alltaf meira, djarfara og hættulegra kynlíf sem endaði með að ekkert gaf honum sama kikk og það að drepa manneskju á meðan á samförum stóð – það varð toppurinn og það eina sem gaf honum almennilegt kikk í kynlífinu!

Í grein á forerunner.com sem ég vitna lauslega í hér að neðan finn ég sláandi tölur svo ekki sé meira sagt ásamt niðurstöðum úr rannsóknum sem gerðar hafa verið um þetta efni .

Í könnun sem gerð var á 4.367 körlum í Belgíu, Danmörku og Bretlandi og kynnt var árið 2020 á sýndarþingi European Association of Urology kom í ljós að þeir karlmenn sem sögðust horfa á klám í 70 mínutur eða meira vikulega áttu ekki eins ánægjulegt kynlíf með maka sínum og voru líklegri til að eiga við risvandamál að eiga en þeir sem minna klámáhorf stunduðu.

Tvær viðamiklar rannsóknir sem gerðar voru um áhrif kláms á hegðun manna sýna einnig að eftir því sem klámið er grófara og ofbeldisfyllra hefur það meiri áhrif á mannlega hegðun.

Sálfræðingurinn Edward Donnerstein sem starfar við Háskólann í Wisconsin komst að þeirri niðurstöðu í sinni rannsókn að ekki þurfti að sýna klámfengið efni í langan tíma eða oft til að breyta hegðun til hins verra hjá þeim sem tóku þátt í rannsókn hans.

Karlar virtust verða ofbeldisfyllri gagnvart konum, fundu minna fyrir tilfinningum gagnvart þeim sem áttu um sárt að binda vegna nauðgana og voru afar fljótir að tileinka sér mýtur um orsök nauðgana.

Dr. Dolf Zimmerman og Dr. Jennings Bryant sýndu fram á með rannsóknum sínum að klámfengið efni hafði alvarlegar afleiðingar á viðhorf manna um almenna kynhegðun og þá gagnvart kvenfólki sérstaklega. Þeir fundu einnig út að klámáhorf hafði þau áhrif, að fólki fannst nauðgun ekki eins stór glæpur og okkur flestum finnst. Þessir rannsóknaraðilar fundu einnig út að mikið klámáhorf eykur löngun í áhorf á sífellt grófara klám og eða ofbeldiskynlíf.

Victor Cline rannsakandi við háskólann í Utah hefur skjalfest í sínum rannsóknum hvernig klámfíkn þróast frá einu stigi á annað, hvernig sífelld löngun í grófara klám og ofbeldi eykst og endar gjarnan með því að ekki er nóg að horfa á klámið heldur þarf að prófa sig áfram með það í raunveruleikanum.

Charles Keating of Citizens for Decency Through Law hefur sýnt fram á alvarlegar og sláandi tölur hvað varðar þá sem hafa beitt börn misnotkun en 77 prósent af þeim sem misnotað hafa drengi og 87 prósent af þeim sem misnotað hafa stúlkur viðurkenna að þeir hafi verið að framkvæma athafnir sem þeir hafa séð við áhorf á klám. Sláandi prósentur hér á ferð!

Að lokum ætla ég að taka dæmi frá Bandaríkjunum þar sem félagsfræðingarnir Murray Straus og Larry Baron starfandi við háskólann í New Hampshire komust að þeirri niðurstöðu, að tölfræðin sýndi ótvírætt fram á að nauðganir voru hæstar í þeim ríkjum þar sem klámblöð og annað klámefni seldist mest.

Í Bandaríkjunum einum er áætluð ársvelta klámbransans aðeins 12 billjónir dollara, ekki léleg velta það! og því engin undra hversu mikið klámefni finnst á markaðnum.

Allt eru þetta sláandi tölur og staðreyndir sem segja mér að það er full ástæða fyrir okkur öll að vera vel á verði og standa vörð um það að verja börn okkar með öllum hætti frá klámáhorfi, kyrkingum og endaþarmsmökum áður en þau hafa vit á að velja fyrir framtíð sína.

Klám og kynlífsfíkn eru erfiðir sjúkdómar við að eiga vegna þess að kynlöngunin er ein sterkasta hvöt mannsins og því ber okkur að taka málin föstum tökum strax í dag ef við ætlum að vernda komandi kynslóðir frá þeim hörmungum sem kynlífsfíknin veldur, og eins ef við viljum breyta virðingastuðli í framkomu og orðum komandi kynslóða gagnvart báðum kynjum.

Fyrir þá sem nú þegar hafa lent í klóm fíknarinnar eru til samtök eins og SLAA sem hjálpað hafa mörgum að ná tökum á sinni fíkn. Á síðu þeirra er að finna gagnlegar upplýsingar og fróðleik ásamt fundaskrá. http://www.slaa.is/

Kynlíf er fallegt og gott í sinni fegurstu mynd og tengir tvær mannverur kærleikans böndum eða böndum einingarinnar, trausts og opinna tilfinninga, og við ættum að halda í það sakleysi sem þar finnst með öllum ráðum þegar við erum að tala um börn og unglinga í stað samþykkis á öllum fjandanum sem er að eyðileggja helbrigð mörk þeirra.

Kjóstu aðeins það besta og láttu engan gera neitt við þig í kynlífi sem þér þykir ekki þægilegt og eða fallegt fyrir þig sem persónu eru skilaboð mín til unga fólksins og á sama tíma biðla ég til þeirra sem ala þau upp og bið þau að muna að það er allt í lagi að segja að eitthvað sé bannað eða hættulegt.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi, pararáðgjafi, Trm þrautsegjuþjálfi.

linda@manngildi.is

Heimildir hjá Forerunner.com:

1 Pornography and Violence Against Women, 1980.

2 “Pornography, Sexual Callousness, and the Trivialization of Rape,” Journal of

Communication, 1982.

3 “The Effect of Erotica Featuring Sadomasochism and Bestiality of Motivated Inter-

Male Aggressions,” Personality and Social Psychology Bulletin, 1981. 4 Rape and

Marriage, 1982.

5 “Where Do You Draw the Line?” 1974.

6 “Legitimate Violence and Rape: A Test of the Cultural Spillover Theory,” 1985.

Pin It on Pinterest

Share This