Skip to main content

Í dag ætla ég að fá að tjá mig aðeins og líklega röfla svolítið eins og mín er von og vísa. Þú þarft ekki að vera sammála mér í þessum efnum en ég held að það væri hollt fyrir okkur að skoða það góða sem gömlu leiðirnar gáfu okkur þrátt fyrir allt.

Það er nú bara þannig að á mínum frábæra aldri hef ég uppgötvað margt varðandi lífið sem mig langar að deila með ykkur, og kannski er von mín sú að ég geti haft áhrif til góðs með skrifum mínum, og kannski er það sú löngun mín að breyta heiminum í átt til vellíðunar sem fær mig til að tjá mig.

En hér kemur þetta röfl:

Lífið hefur kennt mér að það sem skiptir mestu máli hér á jörðu er kærleikurinn, vonin í erfiðum aðstæðum og trúin á að allt sé okkur mögulegt. Að hafa velvild að leiðarljósi, að styðja samferðamenn okkar á leiðinni um lífið, að eiga samhenta fjölskyldu og það að vilja öðrum að ná velgengni og árangri ásamt góðum samskiptum. Þetta er það sem ég tel geta orðið okkur mannkyni sem heild til farsældar.

Því miður finnst mér ég oft upplifa að þessum þáttum sé gefinn allt of lítill gaumur í okkar annars þokkalega ágæta þjóðfélagi og aðrir forgengilegri hlutir látnir í fyrirrúm og jafnvel stundum gert góðlátlegt grín að þeim sem láta sig varða andlega líðan og kærleiksríka nálgun lífsins.

Ég ætla að halda því hér fram að það var mín kynslóð og sú sem á undan mér var sem sundraði fjölskyldueiningunni og bjó þar með til án vitundar vonandi einmannaleika barna, einhleypra, gamalmenna og útbrunninna foreldra. Við settum gömul og góð gildi út fyrir mengið þannig að sú kynslóð sem nú vex úr grasi fær takmarkaða lífssýn og reynslu þeirra sem eldri eru og fara á mis við svo margt sem fæst með því að umgangast þá sem eldri eru í leik og störfum.

Við konurnar sem fóru af stað í kvenréttindabaráttuna sem var svo sem löngu tímabær ef við horfum til menntunar og jafnlaunastefnu leit á það sem lítils virði að ganga með og fæða börn að ég tali nú ekki um að vera vera „bara“húsmóðir“ og uppalandi (sem er erfiðasta starf sem ég hef tekið að mér),og slepptu því þar með að fara fram á að það yrði metið til launa og þeirrar virðingar sem það svo sannarlega átti skilið.

Hvað fengum við svo í staðinn? Börn með allskonar kvíðatengdar greiningar frá frumbernsku, foreldra í kulnun, afa og ömmur sem hafa ekki tilgang fyrri kynslóða og kvíða því að verða einir, veikir og umhugsunarlausir í ellinni. Semsagt allar kynslóðir meira og minna einmanna kúrandi ofan í símana sína til að finna sér einhver samskipti og fyrirmyndir og því miður allt of margir sem velja svo fjarveru frá raunveruleikanum með því að mynda með sér ýmiskonar fíknir sem draga úr vanlíðaninni og deyfa.

Hinir fullorðnu og hamingjusamlega skildu, þessir sömu og ætluðu sér að finna hamingjuna þar sem fullkomleikinn hlyti að bíða þeirra eru hræddir við ástina, skuldbindinguna, og kúldrast því einir og enginn hefur tíma til að líta inn til þeirra eftir að vinnudegi lýkur. Uppkomin börnin dottin meira eða minna úr sambandi við þá vegna annríkis og skemmtana.

Ég segi bara til hamingju við! Stórkostlegur árangur græðgiskynslóðarinnar sem telur allt í merkjavörum, peningalegri velgengni, titlum og veraldarvafstri.

Við erum líka kynslóðin sem gáfum börnum okkar tvenn eða fleiri heimili og í sumum tilfellum marga foreldra, afa og ömmur, og töldum börnunum okkar trú um að það sem skipti máli væri að klifra metorðastigann og huga einungis að tengslum sem við gátum nýtt okkur við framapotið.

Við tókum í burtu samstöðu og einingu fjölskyldunnar og til hvers?

Hefur staða konunnar batnað svo mikið? Er hún að fá sömu laun, sömu tækifæri, titla og stöður og karlmenn? Ekki hef ég orðið svo mikið vör við það ef ég á að vera hreinskilin. Hins vegar hef ég séð konur sem hafa lent illilega í kulnun vegna þess að vinna hefur aukist mjög mikið hjá þeim. Þær hika margar við að taka að sér háu stöðurnar í þau fáu skipti sem þeim  bjóðast þær vegna álagsins sem þær búa við á heimilinu og í vinnu og geta hreinlega ekki meir.

Ég hitti því miður allt of oft ofkeyrðar mæður (ekki bara einstæðar)sem eru að reyna að standa sig á öllum vígstöðvum en geta bara hreinlega ekki staðið undir öllum þeim hlutverkum sem þeim er úthlutað í dag, en þora ekki fyrir sitt litla líf að viðurkenna að þær séu ekki að valda fullkomnunni, og ég held satt að segja að kvennabaráttan hafi því miður haft í för með sér aukna vinnu, fleiri hlutverk með tilheyrandi álagi fyrir konur sem leitt hafi af sér streitu, kvíða og aðra fylgikvilla.

Börn dagsins í dag kvarta yfir samskiptaleysi og áhugaleysi foreldra og allt glysið, glaumurinn og photoshoppaðu samfélagsmiðlarnir eru eðli málsins samkvæmt ekki að svala þörf þeirra fyrir það sem gefur lífinu gildi sitt nema síður sé.

Hvenær ætlum við að vakna og hætta að lifa í Hollýwoodgerðri fullkomnunarmynd? hvenær mun myndast tími fyrir það fallega sem lærist og fæst með nánu sambandi foreldris, barns og stórfjölskyldunnar? Hvar eru samskiptin, matarboðin, steikin á sunnudagsmorgnum og sunnudagskaffi stórfjölskyldunnar og svo margt sem áður kenndi okkur allt um einingu, öryggi, náin og gefandi samskipti? Og hvers vegna erum við á þessum stað? Hvað varð til þess að við konur afsöluðum okkur réttinum á því að vera með börnum okkar og kenna þeim á lífið? Hvers vegna báðum við ekki um að móðurstarfið yrði metið eins og hvert annað starf? Því báðum við bara um fleiri barnaheimili, lengri skóla, frístund að skóla loknum og lengri vinnudag fyrir börnin okkar?

Ég veit að þessi orð mín munu valda smá fjaðrafoki því að ég tel að mín kynslóð og sú feminiska barátta sem þar komst í hámæli hafi gert fátt til að tryggja það að foreldrar hefðu val um menntun og starf versus rétt á launum frá þjóðfélaginu til að tryggja öryggi og tíma fyrir uppeldi barna sinna innan veggja heimilisins.

Við gleymdum því að náttúran sjálf er vitur og vissi frá upphafi að það þarf einingu og heilbrigði fjölskyldunnar ásamt nánd og kærleika til að byggja upp öruggan hamingjusaman einstakling! Einstakling sem á skjól á heimili sínu þegar hann er að taka skrefin sín í samskiptum og er að kynnast hinni spennandi en stundum grimmu veröld. Eins og þetta er í dag þurfa börnin bara að læra að bjarga sér sjálf í frumskóginum og takast á við tilfinningar sínar innan um ókunnuga aðila sem auðvitað eru þó að gera sitt besta til að barninu líði vel og reyna að styðja það á allan þann hátt sem þau geta – en þau eru ekki mamma og pabbi eða afi og amma, stórfjölskyldan né þorpið.

Ekki heyra það sem ég er ekki að segja.

Margt gott gerðist með kvennabaráttunni á sínum tíma og við værum sennilega ekki með me too umræður og fleira ef hennar hefði ekki notið við, en það gerðist líka margt sem ekki var svo gott. Það versta sem gerðist að mínu mati var að við konur litum okkur svo smáum augum að við gleymdum því að valið okkar stóð um að verja þá sérstöðu sem það gefur okkur að ganga með og fæða barn og veita þeim menntun í samskiptum. Að gefa þeim öryggi og kærleika sem enginn annar er færari um að gefa, og gera þau þannig tilbúin fyrir það líf sem bíður þeirra á fullorðinsárunum ásamt því hlutverki að erfa jörðina og stýra farsæld hennar.

Við gleymdum því einnig að þegar barn er fætt inn í þennan heim á það rétt á foreldrum sínum – ekki bara þegar um forræðisdeilur er að ræða heldur einnig þegar það er í heiminn borið. Hvers vegna tölum við aldrei um það?

Og hvers vegna upplifi ég eins og að börnin okkar hafi bara engin réttindi ófædd eða fædd, skýtur það ekki skökku við barnasáttmála og verndun barna?

Og ég spyr, hvað hefur áunnist og hvað hefur tapast? Hverjir græða og hverjir tapa á þessu tiltölulega nýja fyrirkomulagi?

Svar mitt er einfalt – það er mín skoðun að við létum frá okkur mennskuna fyrir hlaup á iðnaðarhjóli mammons og fengum í staðinn glamúr, glaum og brotinn heim.

Þar til næst elskurnar

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This