Skip to main content

Þessir tímar sem við lifum á hafa tekið okkur út úr asa þeim sem við höfum lifað við og þeir krefjast þess af okkur að við förum inn á við í sjálfsskoðun og hvernig við getum betur lifað lífinu. Þetta er tími til þess að slaka á og anda djúpt inn í aðstæðunum. Skoða innviðina og sjá hvað við finnum þar. Erum við að glata frá okkur einhverju sem skiptir okkur verulegu máli og þá á ég ekki við veraldlegu hlutina heldur tengingu okkar við okkur sjálf og þá sem í nærumhverfi okkar eru?

Höfum við látið frá okkur gildi sem þó gáfu okkur meiri ró og öryggi en þær aðstæður sem við búum við í dag? Þurfum við kannski að kollvarpa lífi okkar þegar við horfum á þessa breyttu heimsmynd sem ekkert okkar veit í dag hvernig verður?

Hvaða gildi viltu innleiða og hvað þarftu inn í þitt líf? Hvet þig til að skoða það á þessum tímum.

Að teygja sig til annarra á þessum tíma er einnig bráðhollt og gott – þetta eru tímar sem tengjast í tvær áttir, til kærleika og ótta. Reynum að hafa fókusinn okkar meira á kærleikann en óttann og finnum nýjar leiðir sem gagnast betur því innihaldi sem við viljum finna í lífinu. Óttinn þessi óvinur okkar allra er það afl sem leiðir okkur til tortímingar og jafnvel einangrunar. Við þorum ekki að teygja okkur til fólks og þorum ekki að stíga skrefin inn í óttann okkar, þorum ekki að sækja fram, höfnum okkar vegna skorts á sjálfstrausti og svo framvegis, þorum jafnvel ekki að rétta út hjálparhönd því að við erum hætt að kunna að tilheyra hjörðinni.

En sem betur fer sé ég að þessir tímar munu leiða til góðs í þessum efnum þegar ég sé alla þá sem eru að gefa af sér til þjóðarinnar, þá sem víkja úr vegi bæði til að vernda sjálfa sig og eins náunga sinn og stjórnmálaöflin eru komin í sama lið til að bjarga landinu okkar – er það ekki dásamleg tilbreyting?

Ég held að á komandi tíma munum við sjá sambönd fara í sundur sem ekki eru að hafa góð áhrif á líf okkar, ég sé líka sambönd myndast og önnur sem munu læknast og verða nánari en fyrir Covid faraldurinn. Ég held einnig að vinátta og samkennd muni styrkjast eða fara í sundur ef ekki er pláss fyrir hana í nýrri gildismynd okkar. Og allt held ég að þetta muni verða vegna þess að við munum sjá lífið og tilveruna í skírara ljósi og vita hvaða orkusviði við viljum tilheyra og hvað er ekki að passa okkur þar.

Ég hlakka til þessara tíma sem krefja okkur til þess að vakna til okkar sjálfra og skoða okkur innan frá og út í stað utan frá og inn í allt of langan tíma. Við höfum öll fundið undanfarin ár að við leitum eftir ró, allskonar andleg iðkun hefur verið vinsæl sem aldrei fyrr vegna þess að við finnum að við höfum látið hana frá okkur fyrir hluti sem skipta minna máli og við mæðumst í of mörgu.

Sá myndband frá indverskri konu að nafni Vandana Shiva þar sem hún talaði um að loksins fengjum við að sjá að við getum ekki lifað í þeirri heimsku sem viðgengist hefur. Hún segir að við þurfum að öðlast þekkingu á því sem skiptir máli og að læra að lifa í sátt við móður jörðu, þurfum að læra að annast og elska og að deila með okkur. Hún segir einnig að það verði konurnar sem muni kenna okkur hvernig það er að vera human eða manneskja. Hún segir að fórnarkostnaðurinn við okkar glæsilíf hafi verið mikill og hafi kostað meðal annars dráp á ungum stúlkum í þrælaverksmiðjum í Bangladesh og víðar og að við þetta verði ekki unað lengur. Ráð hennar til yngri kynslóðarinnar er að við þurfum að læra að vinna með höndum okkar og sál í tengingu, það sé æðsta form þróunar mannsins. Einnig segir hún að lítið hafi verið gert úr mæðrum sem elduðu handa börnum sínum en það segir hún að ef ekki hefði verið fyrir eldamennsku móðurinnar þá værir þú einfaldlega ekki hér. Margt sem hún sagði í þessu myndbandi og ég gæti skrifað um hér, en að mínu viti er mikill sannleikur falinn í orðum hennar.

Í dag sjáum við hvaða stéttir skipta raunverulega öllu máli og merkilegt nokk eru það störfin sem við höfum gert sem minnst úr en þurfum nú sem mest á að halda. Allir þeir sem starfa í umönnun eða við að aðstoða einstaklinga með einum eða öðrum hætti eru nú orðnir hetjurnar okkar sem er vel – ég vona bara að það skili sér í betri launum og framfærslu til þeirra sem þakkarvott okkar fyrir óeigingjarnt starf í þágu þjóðarinnar.

En eitt er víst að veröldin eins og við höfum þekkt hana mun breytast á komandi tímum og ég segi eins og Dröfn Vilhjálmsdóttir segir í pistli sínum á Vísi „ Mér líður dálítið eins og að jörðin hafi verið að senda okkur öll inn í herbergi og skellt hurðinni reiðilega á eftir okkur með orðunum; “verið hér í nokkra mánuði og hugsið nú um hvað þið hafið gert … og skammist ykkar!”

Tek heilshugar undir þessi orð hennar og er ekki hissa á því að við séum rassskellt fyrir ofgnóttir, eigingirni og veraldavafstur og það sem einkennt hefur tímana síðustu tvo áratugina.

Við létum frá okkur fjölskyldumynstrið okkar, vöfflukaffið á sunnudögum, spariklæðnaðinn á helgideginum, kurteisi og umönnun, kennslu eldri kynslóðarinnar til hinnar yngri, börn hættu að annast og virða foreldra sína að miklu leiti og gáfu þeim ekki tíma sinn, kærleikur flestra  fór einnig niður um nokkrar gráður í átt að frosti – og ég held að við séum öll sek um eitthvað af þessu.

Þetta munum við þó allt þurfa að skoða og læra að meta það sem móðir jörð hefur fram að færa og lifa í þakklæti anda okkar til alls þess sem skapað er og dregur andann.

Okkur líður líklega mörgum ef ekki flestum svolítið skringilega inni í þessum aðstæðum sem við erum í núna, svolítið eins og við séum í skammarkróknum og eigum að finna út úr því hvernig okkur líður og finna betri leiðir. Læra að treysta lífinu og fara með æðruleysisbænina sem aldrei fyrr.

Því að þetta er tími núvitundar og andans. Þessi kynslóð hefur ekki þurft að gera sér grein fyrir því að við erum andi sál og líkami en nú er tíminn kominn.

Látum kærleikann verða leiðarljósið okkar á þessari leið, setjum fókusinn okkar á það og munum að allur heimurinn er eitt samfélag.

Nýtum þennan tíma til að  hætta að aðgreina og dæma þá hluta heimsins sem við þekkum ekki, umvefjum frekar þá hluta og reynum að skilja þá og sýnum virðingu – þannig búum við til fallegt og réttlátt heimskerfi og tækifærið til þess er núna og við getum öll lagt okkar af mörkum.

Þar til næst elskurnar

Xoxo -stay safe

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This