Skip to main content

Um daginn las ég grein eftir Dr, John Day hjartalækni sem heldur úti síðunni https://drjohnday.com. Greinin fjallaði um það hvernig við gætum eignast skothelt hjarta og ég ætla að stelast til að taka aðalatriðin úr þeirri grein og færa þau atriði í minn stíl.

Greinin vakti athygli mína einkum fyrir það að vera sammála mínum skoðunum um hversu mikil áhrif okkar samfélagslega gerð hefur á heilsu okkar til anda sálar og líkama, og hverju við höfum verið að kasta frá okkur fyrir heimsins gæði eftir ca 1950.

Árið 1961 þegar hjartasjúkdómar komust í hæstu hæðir í Bandaríkjunum og einmannaleikinn fór vaxandi (Samkvæmt könnun sem ég rakst á um daginn) tók læknir einn í Roseto þorpinu eftir því að hjartasjúkdómar voru ekki þekktir í þessu litla þorpi og lét hann Dr Wolf sem starfaði í Háskólanum í Oklahoma vita af þessu og fékk hann ásamt fleiri rannsóknaraðilum áhuga á því að kanna málið frekar.

Allir þorpsbúar voru fengnir til að taka þátt í rannsókninni og allt á milli himins og jarðar var kannað. Blóðprufur, matarræði og hvernig þeir höguðu lífi sínu var athugað.

Og eftir nokkur ár eða árið 1964 birtust niðurstöðurnar úr þessari rannsókn í Tímariti the American Medical Association.

Í ljós kom að hinir Ítölsku íbúar Roseto borðuðu ekki rétt og voru í yfirvikt. Þeir reyktu, voru með hátt kólesteról, bjuggu við mikla mengun en samt voru þeir í helmingi minni áhættu á því að fá hjartasjúkdóma en aðrir íbúar landsins, eða virtust varðir fyrir þeim með einhverjum hætti.

Rannsakendur urðu furðu lostnir og fóru að leita að skýringum.

Í ljós kom að þessir Ítölsku innflytjendur höfðu haldið félagslegum grunni sínum óbreyttum frá því að þeir fluttu frá Ítalíu til fyrirheitna landsins eða allt frá árinu 1882.

Þorpið var frekar einangrað og þeir giftust ekki út fyrir þorpið, héldu sig út af fyrir sig eða frá þorpunum í kring, lofuðu Guð, versluðu í heimabyggð og þrjár kynslóðir bjuggu saman undir sama þaki. Þeir semsagt gengu gömlu göturnar þrátt fyrir allar þjóðfélagslegu breytingarnar sem urðu á árunum eftir stríð, götur sem við Íslendingar gerðum einnig lengi vel og gerum kannski vonandi að einhverju leiti enn.

Það voru einkum fjórir þættir sem virtust vera orsökin fyrir þessari vörn gegn hjartasjúkdómunum þorpsbúanna en þeir voru sem hér segir:

1. Fjölskyldulíf

Fyrir þessa Ítala var fjölskyldan allt. Kynslóðirnar bjuggu saman og þeir önnuðust hvern annan á allan hátt. Fjölmargar rannsóknir virðast vera sammála þessum niðurstöðum Roseta rannsóknarinnar því að gott hjónaband og sterk fjölskyldubönd virðast fækka hjartaáföllum samkvæmt þeim nýjustu og því ættum við að viðhalda og styrkja þessi bönd á allan hátt.

2. Andleg rækt og trú.

Ítalirnir voru kirkjuræknir og fóru í kirkju á hverjum sunnudegi og voru afar andlega sinnaðir með kristin gildi að leiðarljósi og önnuðust náunga sinn eins og sjálfan sig.

Í dag vitum við að það að hafa góð gildi í lífi okkar og að annast okkar innri mann er það sem gefur okkur frið og ró í erli daganna, þannig að þetta eru svosem ekki nýjar fréttir fyrir okkur. Samt er það eitthvað sem við mættum huga betur að og kannski leyfa trúnni að komast í tísku aftur þar sem hún hefur góð samfélagsleg gildi og sú andlega rækt sem fylgir hefur góð áhrif á heilsu okkar á margan hátt.

3. Sterkt samfélag

Þeir sem áttu meira en aðrir í Roseto voru ekkert að berast á og í raun höfðu þeir ekki hugmynd um það hver var ríkur eða fátækur þeirra á meðal og lífsgæðakapphlaupið þekktist ekki. það þótti meira að segja ekki fínt að láta á því bera ef þú áttir meira en aðrir. Samfélagið annaðist alla og samábyrgðin var algjör. Ef einhver var í neyð kom allt þorpið til aðstoðar og allir litu á sig sem systkyni hvers annars.

4. Lágt streituhlutfall

Að sleppa tökunum og láta áhyggjur og örlög sín í Guðs hendur var það sem lækkaði streitustuðul Ítalanna og þeir vissu að hvað sem gerðist í fjölskyldu þeirra eða samfélaginu yrði alltaf til staðar aðstoð við þá. Og áhugavert var að það þekktust ekki glæpir í þessu litla samfélagi.

Streita er eitthvað sem við þekkjum vel í dag og í raun er streitan að sliga okkur og gera okkur veik (og auka líkur á hjartaáföllum) Þannig að uppskrift Dr Johns sú að við ættum bara að vera ánægð með að hafa traust þak yfir höfuðið, nægan mat og ástrík samskipti. Hin fullkomna uppskrift að heilbrigðu nægjusömu lífi kannski fundin í þessu litla innflytjenda þorpi.

Er þetta ekki dásamlegt samfélag sem þeir byggðu sér þarna í Roseto? Það er mín skoðun að þeir hafi þarna fundið hina fullkomnu leið til að hámarka gæði lífsins og sú gamla gata sé eitthvað sem vert er að hafa í huga þegar við tökum ákvarðanir varðandi það hvernig samfélag við viljum byggja að mínu mati a.m.k.

En hvernig er Roseto í dag? Sagan endar því miður ekki eins og í ævintýrunum því að þeir fóru að giftast út fyrir þorpið og skilnaðir jukust. Trúariðkunin dalaði og varð ekki það lím sem hún áður var og lífsgæðakapphlaupið varð með svipuðum hætti og í öðrum bæjum og borgum Bandaríkjanna þannig að í kringum 1970 varð þetta skothelda hjarta sem þeir áttu áður í sama áhættuhópi og þekktist annarstaðar.

„Roseto áhrifin“ standa þó enn sem lýsandi viti fyrir okkur til að fara eftir. Góð fjölskyldutengsl, andlega lifað líf, að annast náungann og minnka stressið er leiðin ef við viljum losna við fjölmarga sjúkdóma og eignast skothelt hjarta segir Dr John og ég segi bara Amen við því!

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This