Skip to main content

Við lifum á tímum þar sem útlit hefur mikið að segja um lífsgæði þín og möguleika jafnvel á vinnumarkaði ef við viljum vera heiðarleg, og við gerum ýmislegt til að lúkka vel og fixa það sem þarf að fixa. En sumt er það sem við tölum ógjarnan um varðandi það hvað við gerum til þess að halda okkur nú ungum og ferskum og þar eru fegrunarlækningar einna fremstar í flokki. 

Fegrunarlækningar eða lýtalækningar þær sem við förum í eru eitthvað sem við hvíslum kannski að okkar nánustu vinum en engum öðrum, og það er sama hvort við erum að tala um það sem er frábært og lífsumbreytandi við þessar aðgerðir eða bara bjútífixin sem við freistumst til að prufa. Vegna þess hversu mikið tabú er að tala um þetta þá komast allskonar sögusagnir á kreik og sumar verða til þess að þeir sem virkilega þurfa aðstoð varðandi líkama sinn leita hennar ekki og leita sér jafnvel ekki upplýsinga frá þeim fagaðilum sem allt vita um málin.

Ég hef svosem tekið þátt í þessum fixeringum sjálf með því að láta lita hár mitt og skerða, hvítta tennur, farið í megranir, göngutúra, ræktina, neglur og nú síðast að varna þess að hrukkurnar fái að dýpka í friði með því að fylla bara í þær.

Ég hef nú ekki alltaf verið hrifin af öllu því sem okkur konum er selt í dag sem á að gera okkur svo gasalega lekkerar og yngja okkur um áratugi en í þessum efnum sem og öðrum tel ég vera til undantekningar og tel einnig að millivegurinn sé farsælastur alls hér sem annarstaðar.

Finnst jafn sjálfsagt fyrir mig í dag að huga að hrukkunum eins og að lita hárið og hvítta tennurnar, enda sé ég ekki ástæðu til að eldast neitt fyrr en þörf er á og ætla að gera mitt besta til að nýta mér þá þekkingu sem til er í dag til þess 🙂

Sjálfsagt flokkast þetta fikt mitt ekki til nauðsynlegra fegrunaraðgerða en sumar þeirra aðgerða sem gerðar eru af lýtalæknum falla þó undir nauðsyn að mínu mati og geta haft miklar breytingar í för með sér á sjálfstrausti og sjálfsmynd einstaklinganna sem í hlut eiga, og það hef ég séð gerast hjá nokkrum í gegnum tíðina en ætla að segja hér eina af þeim umbreytingasögum.

Fyrir nokkrum árum fékk ég að kynnast ungri konu og sögu hennar. Þessi unga kona hafði alveg frá því að hún var lítil stelpa verið allt of þung og fengið að kenna á stríðni, einelti og ákveðinni útskúfun alla sína æsku og unglingsár vegna þyngdar sinnar.

Þetta varð til þess að sjálfsmynd hennar laskaðist illa og félagslega hlið hennar var einnig í molum. Hún flosnaði uppúr námi og sótti ekki það sem hún vildi því að hún var auðvitað búin að telja sér trú um að hún ætti ekkert gott skilið vegna særandi orða og framkomu samfélagsins sem sagði henni að hún væri ekki nægjanleg eins og hún var.

Og til að ná sér nú í þjóðfélagslegan samþykktarstuðul tók hún sig til eftir barnsburð og náði að létta sig um marga tugi kílóa og hélt að allt yrði þá með öðrum og betri hætti, en sat uppi með annað og ekki síðra vandamál sem var að hún var með allt of mikla aukahúð sem ekki aðlagaði sig að líkama hennar. Þessi aukahúð gerði það að verkum að þessi unga kona leit enn á sig ekki fallegum augum, og var ekki nóg hvorki fyrir sjálfa sig né samfélagið.

Þessi sýn hennar á sig varð þess valdandi að hún sleppti því að fara í sund, leikfimi, klæddi sig aldrei eins og henni langaði til að klæða sig og til að kóróna allt þá gat hún ekki hugsað sér að kærastinn sæi líkama hennar.

Þetta er þó sem betur fer bara byrjun sögunnar því að hún ákvað eftir langa umhugsun að heimsækja Ágúst Birgisson lýtalækni til að athuga hvað hægt væri að gera í málunum þar sem hún vissi að hún þarfnaðist aðstoðar hans til að ná framgangi á uppbyggingu sjálfstraustsins.

Ég var síðan svo heppin að fá að fylgja henni á þessari vegferð hennar og sjá hvaða breytingar urðu í hennar lífi eftir að hún fór í stóra og mikla aðgerð þar sem tekinn var tæpur tugur kílóa af aukahúð af henni.

Aðgerðin sem fór fram á sjúkrahúsi fyrir Norðan gekk mjög fagmannlega og vel fyrir sig og bataferlið gekk einnig afar vel og hún var alsæl með þessa ákvörðun sína.

Og þar sem ég fékk að fylgjast með þessari ungu konu áfram þá sá ég hvað þetta gerði mikið fyrir sjálfsmynd hennar og hvernig hún smá saman var tilbúin til að stíga út úr sínum einfalda og einangrandi ramma og sækja það sem hún hafði kannski allan tímann haft löngun til en lét kílóin og síðan aukahúðina stöðva sig í að ná í. (og því miður er hún ekki eina dæmið sem ég hef séð af þessum toga)

Ég hef séð hana blómstra meir og meir eftir því sem lengra hefur liðið frá þessari örlaga-aðgerð hennar og hversu mikið hún nýtur þess að vera til (hún keypti sér meira að segja falleg nærföt). Það hefur fengið mig til að hugsa um hversu miklu meiri áhrif útlit okkar hefur á sjálfsmyndina en okkur gæti grunað og eins hefur það áhrif á það að við sækjum draumana okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr að horfa á þá staðreynd.

Kannski hefur það mun meiri áhrif en ég nokkurn tíman gerði mér grein fyrir eða kærði mig um að viðurkenna..

Við lifum í heimi þar sem okkur er sagt daginn út og inn hvernig við eigum að vera til að vera samþykkt og gjaldgeng og afleiðingaranar eru þær að svo allt of margir upplifa sig langt frá því að geta nálgast það sem þeir vilja vegna þess að þeir fylla ekki upp í staðlana sem við búum til hverju sinni, og hvað sem okkur kann að finnast um það, þá er fullt af einstaklingum sem eru að þjást verulega vegna þessa.

Ég tek það þó skýrt fram að ekki er nægjanlegt að fara bara í eina aðgerð til að allt verði gott hvað varðar sjálfstraust og vellíðan, alls ekki.

Ég tel að alltaf þurfi að vinna með sjálfsmyndina og byggja hana upp innan frá og út á sama tíma eins og þessi unga kona reyndar gerði, því að hluti vandamálsins er alltaf hugsunin „ég er ekki nóg“ og sú hugsun lagast ekki við það eitt að laga útlitið heldur með því að kikka á innihaldið líka í leiðinni og breyta þar hugsana og skilgreiningaforritinu sem keyrir í bakgrunninum sem segir okkur að við séum ekki nægjanleg.

En hvers vegna er ég að skrifa pistil um lýtaaðgerðir/fegrunaraðgerðir?

Jú vegna þess að ég heyri fordóma samfélagsins svo víða gagnvart þessum málum, sem er þó skrítið þar sem við erum útlitsdýrkandi samfélag, en þessir fordómar verða allt of oft til að stöðva fólk eins og þessa ungu konu í því að leita sér aðstoðar og það lokar sig þess í stað frekar af í vanlíðan sinni.

Og þó að þessi pistill yrði bara til þess að koma einni innlokaðri mannveru í að sækja sér aðstoð þá yrði ég ánægð með að hafa skrifað um þetta mjög svo viðkvæma málefni sem margir hafa haft svo sterkar skoðanir á og telja til feimnismála.

Verum óhrædd við að leita okkur aðstoðar í þessum málum eins og öðrum ef það er farið að hafa áhrif á líf okkar.

Og ef þú vilt taka til í innra útlitinu og skoða forritin sem leynast þar sem segja þér að þú sért ekki nóg, er ég eins og alltaf einungis einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This