Skip to main content

Hverskonar týpur eru það sem þeir sem eru haldnir mikilli narsistískum tendensum, og ert þú í þeim hópi?

Í fyrsta lagi virðast það vera aðilar sem hafa áhrif og völd sem þeir narsistisku heillast að. Þeir sem eiga farsælan feril eða eru fremstir í flokki í sínum áhugamálum, eru gæddir miklum hæfileikum hafa gott tengslanet og eða eiga valdamikla fjölskyldu.

Þeir leitast eftir þeim sem upphefja þá og dást að þeim og kveikja á tilfinningum sem gefur nasistanum aukabúst þannig að honum líði vel með sjálfan sig. Ekki er það verra ef viðkomandi er það vel þekktur eða vel kynntur að hann geti „stækkað“ narsisstann með því einu að umgangast þannig manneskju.

Svo eru það týpurnar sem þekkja ekki eigin tilfinningar (þeir sem eru meðvirkir) og eru þá líklegri til að horfa framhjá göllum narsistanna og eru ólíklegri til að yfirgefa þá.

Það er einnig algengt að þeir setji ástarviðhengið á stall þar sem það trónir án allra galla og dvelur í fullkomnum í augum þeirra þar til þeir verða fyrir miklum vonbrigðum þegar þeir sjá að auðvitað er þessi manneskja jafn brokkgeng og við erum öll.

Ef við setjum þær týpur sem narsistarnir virðast laðast helst að sögn þeirra sérfræðinga sem hafa kynnt sér þetta málefni í þaula og setjum upp lista fyrir þær þá eru það eftirfarandi týpur sem tróna efstar þar.

  •  Sterkar valdamiklar konur/menn eða A týpurnar sem eru með allt á hreinu eru ögrandi verkefni fyrir þá, og það er fátt sem veitir narsistanum meiri ánægju en það að geta brotið smátt og smátt niður sterka einstaklinga.
  •  Konur/menn með mikla samkennd (Empath). Narsistarnir þarfnast einhvers sem getur annast um þá og veitt þeim allan þann líkamlega og tilfinningalega stuðning sem þeir þarfnast (en gleymdu því að þú fáir þann stuðning á móti) og það lúkkar líka vel út í frá fyrir þá að hafa kærleiksríka ásýnd makans sér til stuðnings.
  •  Konur/menn með lágt sjálfsmat. Þessum aðilum er auðvelt að stjórna og móta þá í það far sem hentar narsistanum best og þarna er einnig auðvelt að taka út reiðiköstin sem þeir fá þegar hlutirnir ganga ekki alveg upp eftir þeirra höfði. Þarna geta þeir láta ljót orð falla án þess að eiga það á hættu að aðilinn fari. Sá sem hefur lágt sjálfsmat dvelur lengur í aðstæðum sem eru honum skaðlegar oft vegna þess að þeir telja að möguleikar þeirra á því að fá betra samband séu ekki miklar, sem aftur hefur áhrif á ákvarðanatöku þeirra um sambandið og framtíð þess.
  •  Trygglyndar konur/menn. Trygglyndið er narsistanum nauðsynlegt (frá makanum en ekkert sérstaklega frá þeim sjálfum) því að þeir vita innst inni að þeir eru ekki þeir auðveldustu í sambúð með þá skapgerð sem þeir hafa. Brjáluð reiðiköstin, lygarnar og þvættingurinn sem makinn þarf að upplifa eru þessleg að það þarf mjög svo tryggan einstakling til að halda út samband með þeim, og trygglyndið sem þannig samband krefst er öllum óheilbrigt og skaðlegt að hafa.
  •  Þeir sem eiga erfitt með að setja mörk fyrir líf sitt og standa með sjálfum sér. Narsistarnir skilja ekki mörk og reglur einstaklinga né þjóðfélagsins í heild og finnst að þeirra eigin reglur eigi að gilda fyrir alla. Þannig að ef þú átt erfitt með að setja mörk þá finnst þeim bara frábært að setja mörkin eða markaleysið fyrir þig og stjórna með því tilveru þinni og tilfinningum.
  •  Þeir sem bera af í glæsileika. Þetta snýst allt um að lúkka vel í augunum á öðrum sjáðu til, og eftir því sem þú ert glæsilegri þeim betur líta þeir út í samfélaginu með þig sér við hlið.
  •  Þeir sem eru á framabraut og eða eru sýnilegir í þjóðfélaginu og eru með réttu tengingarnar eru á topplista þeirra. Fátt er það sem gleður narsistann meira en það að hafa völd og þekkja rétta fólkið sem getur svo ýtt þeim upp á þann virðingasess sem þeir telja sig svo sannarlega eiga tilkall til óháð getu og hæfileikum.
  •  Konur/menn sem eiga erfið samskipti við föður/móður. Þarna er auðvelt að koma sterk/ur inn sem umönnunaraðilinn eða sá sterki sem er þarna fyrir hinn aðilann og bjargar honum (hetjan) og þarna myndast óheilbrigð þurfandi tengsl (attachment) sem erfitt er að slíta, en þau tengsl geta leitt af sér mikla vanlíðan og óheilbrigði fyrir þann sem verður háður narsistanum með þessum hætti.
  •  Þeir sem redda alltaf öllu. Þeir sem geta séð narsistanum fyrir öllum hans þörfum sögðum og ósögðum og leggja sig í líma við að gera lífið eins þægilegt fyrir hann og unnt er hafa mikið aðdráttarafl fyrir hann. Þrátt fyrir ofurvissu hans um mikilvægi sitt er hann oft of lítill í sér til að ganga í málin sjálfur og að taka ábyrgð sem reddarinn sér honum auðvitað einnig fyrir að taka, og kemur honum þannig undan hinum ýmsu axasköftum sem honum verða á.
  •  Ef  þú ert trúaður einstaklingur eða hefur mjög sterk lífsgildi og háan móralskan stuðul. Ef þú trúir því að þú eigir að fyrirgefa og gefa fólki annað tækifæri þá mun narsistinn nota það óspart, og ef þú sérð það góða í fólki mun hann nota það gegn þér. Þegar þú ætlar að láta hann bera ábyrgð á hegðun sinni eða orðum mun hann snúa því að þér og nota setningar úr þínum móralska grunni sem vopn gegn þér, og þannig snúa öllu á hvolf þar til þú veist ekkert hvaðan á þig stendur veðrið.

Það er afar mikilvægt að skilja þá stöðu sem við erum í hverju sinni í samskiptum okkar og samböndum og að vera ábyrg fyrir vellíðan okkar og vali hverju sinni. Ef þú kemst í kynni við aðila sem kveikir á rauðum ljósum hjá þér eða þegar allar bjöllur fara að klingja hátt hjá þér þá skaltu taka mark á því og koma þér sem lengst í burtu áður en að það verður þér til tjóns.

Því það að fara í samband við manneskju sem er ein persóna þessa stundina en önnur þá næstu, og að lifa í óöruggum aðstæðum alla daga gangandi á eggjaskurn sem má ekki brotna er lífshættulegt ástand og enginn ætti að bjóða sér upp á þannig líf.

Eins er nauðsynlegt að leita sér aðstoðar við að komast frá slíkum aðstæðum þar sem þær eru mjög skaðandi og áfallatengdar og það er mikið til að hæfu fólki sem hefði ánægju af því að aðstoða þig við uppbyggingu frá slíkum aðstæðum.

Ekki gera ekki neitt ef þú finnur þig í neti narsisita því að líf þitt og lífsgæði liggja við.

Og eins og alltaf er ég einungis einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á mér að halda.

Þar til næst elskurnar,

Xoxo ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This