Skip to main content

Í dag er það þekkt að eitt af okkar aðal samfélagslega meini er einmannaleiki í allskonar myndum og líklega erum við mörg að finna það á eigin skinni í dag hvernig það var að vera einn og einmanna í faraldri þeim sem nú geisar um allan heim.

Þessum pistli er þó ekki ætlað að leysa nema kannski að hluta til einmannaleikann sem fylgir hömlum þeim sem gilda í heiminum í dag heldur er honum ætlað að fjalla almennt um þann faraldur sem fer mjög illa með marga í dag og kannski langar mig að miðla nokkrum lausnum inn í þær aðstæður og eins spurningum sem við getum mátað okkur inní.

Á forsíðu Harvard Business Review lýsti fyrrum yfirlæknirinn Vivek Murthy því yfir að allur heimurinn væri að þjást vegna einmannaleikafaraldurs dagsins í dag.

í nýlegri skýrslu frá Cigna er einnig lögð áhersla á það hversu víðfeðmur þessi faraldur er.

Í raun finnst mér ekkert skrýtið við þetta þar sem við erum verur sem þurfum á nánd og samskiptum að halda og finnum það líklega aldrei eins vel eins og á þessum Covit tímum sem við lifum nú og í þeirri breyttu heimsmynd sem er að myndast. Við erum yfirleitt allt of mikið ein eða erum í samskiptum sem eru að mestu vinnutengd og skortir nánd.

Fullorðið fólk, unglingar og börn eru einmanna sem aldrei fyrr. Fjölskyldumynstrin hafa einnig breyst mjög mikið á stuttum tíma. Foreldrarnir búa ekki heima hjá börnum sínum eftir að þeirra starfsævi lýkur eins og áður var (enda yfirleitt um marga foreldra að ræða í dag) og börnin og unglingarnir koma yfirleitt ekki heim að loknum skóla í nýbakaða súkkulaðitertu eða brauð með osti og sultu eins og áður var. Í þá daga komu vinirnir stundum með heim úr skólanum í drekkutíma og leik. Það var yfirleitt einhver heima til að taka á móti okkur og ef ekki þá var stutt í að hann kæmi heim. Þessi mynd er mjög breytt frá því sem ég átti að venjast í mínum uppvexti og er nú ekki langt síðan að ég var yngri en ég er í dag 🙂

Í könnun frá UCLA sem var lögð fyrir töluverðan fjölda bandaríkjamanna kom fram að liðlega helmingur þátttakenda var fyrir ofan viðmiðunarmörk þau sem sett voru á heilbrigð tengsl, og því miður var var meirihluti þeirra sem mældust svona ofarlega á skalanum fæddir á tímabilinu 1997 til 2012. Sláandi niðurstöður og ættu að segja okkur að við erum að gera eitthvað sem er ekki til heilla og ættum að leiðrétta stefnuna sem fyrst.

Við erum margskilin og misskilin, margar mömmur og pabbar, afar og ömmur, búum ein og höfum ekki stuðning þorpsins (hjarðarinnar) sem ég hef lagt mikla áherslu á að tala um í pistlum mínum.

Við sjáum núna á þessum alvarlega Covit tíma (þó að við höfum hingað til sloppið bærilega þar) hversu miklu máli það skiptir að við stöndum saman og hugum að hag samlanda okkar og fjölskyldustunda og ættum að innleiða þá stefnu að þessu loknu, bæði úti í samfélaginu og eins í einkalífinu.

Það skiptir miklu máli þegar þú býrð einn að fá símtöl, matarboð, falleg orð, samskipti á netinu og umhugsun þegar tímarnir eru ekki svo góðir eða þegar veikindi steðja að svo að fátt eitt sé nefnt, og öll viljum við að við séum einhverjum kær og að við séum í huga þeirra sem skipta okkur máli. Flest getum við gert betur þarna.

Að vera Palli einn í heiminum er líklega aumasta hlutskipti okkar hjarðdýranna að ég tali nú ekki um þá sem eru félagslyndir og eiga erfitt með að vera ekki í samskiptum við fólk.

Í dag er mikið talað um að við þurfum að leita inn á við en ekki út á við og það er margt til í því þegar við horfum á streituna sem er í þjóðfélagi okkar. Að þurfa að vera sífellt að uppfylla kröfur tekur okkur alltaf frá því sem skiptir mestu máli. Það endar einnig yfirleitt með því að við hættum að þekkja okkur sjálf og endum í kulnun. Þannig að auðvitað höfum við gott af því að hugleiða og dvelja í anda okkar og einveru um stund en það má þó öllu ofgera.

Við erum andlegar samskiptaverur og það sem meira er, við erum öll tengd hvort öðru á einhvern hátt sem við eigum oft erfitt með að skilgreina. Við þurfum á hverju öðru að halda þó að við þurfum auðvitað að dvelja í einveru stundum.

Það hefur verið talað niður að við höfum þörf fyrir nánd við aðrar manneskjur og tel ég að það sé einfaldlega vegna þess að við erum stundum eins og strúturinn. Við stingum bara höfðinu í sandinn og finnum mjög smart lausnir við ómögulegum aðstæðum og látum eins og allt sé í fínu lagi. Er það ekki svipað og gert var í sögunni um nýju fötin keisarans.

Lausnin sem við fundum og fannst við mjög töff að hafa komið með gagnvart þessari mannlegu þörf á félagsskap var að gera það að skammaryrði þegar einhver segist vera einmanna og að hann þurfi á öðrum að halda. Og þegar fólk viðurkennir að vilja nánd við aðrar mannverur þá ætlar allt um koll að keyra. Þegar við semsagt viðurkennum þá staðreynd og opnum okkur er reynt að segja okkur að við séum einfaldlega ekki nægjanlega andleg og ekki í tengingu við okkar æðra sjálf eða ekki í jafnvægi.

Því fer hinsvegar fjarri, við erum einmitt í tengingu við þarfir okkar þegar við viðurkennum skort okkar á samskiptum og nánd. Við erum hjarðdýr og þau ferðast um í hópum en ekki ein samkvæmt þeirri skilgreiningu sem ég lærði a.m.k í skóla og þurfum þar af leiðandi þessi samskipti jafnt og við þörfnumst matar og húsaskjóls ásamt því að fá að vera ein stundum.

Ég ætla að gefa ykkur smá hugmynd um hvaða spurningar voru notaðar í könnuninni sem ég talaði um hér að ofan og vona að þú þurfir ekki að setja tékk við neinni þeirra og að þú sért í góðum málum þegar kemur að því að tengslum. En hér eru punktar:

  • Mig skortir félagsskap.
  • Það er enginn sem ég get snúið mér til.
  • Mér líður eins og ég sé ein/n.
  • Ég er ekki lengur í nánd við aðrar mannverur.
  • Ég á ekki samleið með öðrum hvað varðar áhugasvið mín og get ekki deilt hugmyndum mínum með öðrum.
  • Mér finnst ég verða útundan.
  • Félagsleg sambönd mín eru yfirborðsleg.
  • Enginn þekkir mig virkilega vel.
  • Mér finnst ég vera einangraður frá öðrum.
  • Ég er óánægður með að vera svona til baka í samskiptum.
  • Ég er einmanna þrátt fyrir að vera í kringum fólk vegna þess að mér finnst það vera í kringum mig en ekki með mér.

Þetta eru aðeins dæmi úr þessari könnun en geta þó gefið þér hugmynd um stöðu þína. Og ef þú kannast við atriðin sem nefnd eru þá væri ráð að leita aðstoðar við að breyta stöðunni.

En þá að leiðum til að sigrast á einmannaleikanum:

  • Hugsanir okkar leiða okkur stundum í ógöngur og verða til þess að við fáum svona rörasýn á aðstæður okkar og það á við þegar við upplifum okkur mjög einmanna. Við ættum hinsvegar að gera allt til að velja hugsanir sem þjóna okkur og finna lausnir á vandamálunum. Ein leiðin sem við getum notað er að ákveða að finna 6 atriði sem gætu breytt félagslegri stöðu þinni til hins betra.
  • Hafðu samband við aðila sem þú telur að hafi sömu áhugamál og þú og bjóddu þeim að taka þátt í klúbbi með þér. T.d bókaklúbbi, kampavínsklúbbi, matarklúbbi, prjónaklúbbi, eða hvað sem þér dettur í hug. Í dag er meira að segja hægt að hafa þetta allt á netinu!.
  • Það er hægt að hella sér út í golfið eða fara þar sem það fólk er sem okkur langar að kynnast.
  • Að fara á námskeið er líka hægt að gera og kynnast nýju fólki þar.
  • En svo kemur að aðal vandamálinu en það er að láta ekki þau samskipti sem þú myndar deyja út vegna þess að þú vilt ekki vera að ónáða fólk eða gefur þér einfaldlega ekki tíma til að sinna tengslum. En ég get sagt þér smá leyndarmál – svona venjulega vill fólk láta trufla sig og er þakklátt fyrir að það sé munað eftir þeim!
  • Finndu þér stað þar sem þar sem þú getur gefið af þér – það er ekkert betra í einmannaleikanum en að gefa öðrum kærleika, samkennd, vináttu og virðingu.
  • Það sem þú getur svo gert fyrir þig og bara fyrir þig er að fara á kaffihús og skoða mannlífið, fara út að borða á flottum veitingastað og borða það sem þig langar í. Lesa góða bók, elda góðan mat og kaupa þér gott vín með matnum, fara í nudd og annað dekur eða leggjast í góða seríu á Netflix með popp og kók á kantinum.
  • Hvað sem þú gerir til að minnka einmannaleikann láttu það vera eitthvað sem gefur þér gleði og hamingju.
  • Að lokum ætla ég að gefa ykkur gott ráð sem einn vinur minn kenndi mér en það er að bjóða manneskju sem þig langar að kynnast í hádegismat og bjóða svo nýrri áhugaverðri manneskju alla mánuði ársins þannig að eftir árið verðir þú búinn að kynnast 12 nýjum manneskjum og jafnvel eignast vini fyrir lífstíð, ekki slæmt það.

En þegar allt kemur til alls þá er því miður einmannaleikinn oft valinn af okkur sjálfum og framtaksleysi og ótti okkar við að nálgast aðra er líklega versti óvinurinn þar ásamt því að samkennd og kærleikur hefur kólnað ískyggilega hratt á þessum glansmyndatímum.

Ég hvet okkur til að stíga inn í óttann og segja þessu framkvæmdaleysi okkar stríð á hendur og gefumst ekki upp þó að allt gangi ekki alveg upp hjá okkur í fyrstu tilraun – gerum bara fleiri og fleiri tilraunir og það er bara ekkert víst að þær klikki allar saman!

Þar til næst dýrmætu þið, –

(og ef þið haldið að þið getið nýtt mína aðstoð við að leysa úr lífsins verkefnum þá er ég eins og alltaf bara einni tímapöntun í burtu).

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This