Skip to main content

Við sem höfum gengið í gegnum skilnað vitum mörg að lífið verður svo sem ekkert baðað rósum að skilnaði loknum, líklega  í fáum tilvikum rómantísk og rauð ástarsaga sem bíður okkar flestra, en margra bíður hins vegar erfið leið þar sem rósirnar hafa svo sannarlega þyrna og því væri heillaráð að hugsa sig svolítið um áður en tiltölulega heillegum samböndum er kastað á glæ.

Ég er ekki að segja að skilnaðir geti ekki átt rétt á sér, því að svo sannarlega eiga þeir margir að eiga sér stað. Þar sem ofbeldi og aðrar mannskemmandi aðstæður er um að ræða er rétt að fara sem lengst í burtu og það hratt og vernda þannig okkur sjálf og þá sem við eigum að vernda þar að auki ef einhverjir eru.

Ég held að ég sé orðin nægjanlega fullorðin samt til að leyfa mér að segja að oft á tíðum eru þó skilnaðir byggðir á litlu tilefni og ég hef horft upp á mörg annars ágæt sambönd fara í vaskinn án nokkurrar ástæðu annarrar en þeirrar að leitin að nýjungum, rómantík og jafnvel gráa fiðringnum tekur völd í huga aðilanna, og í augnablikinu finnst þeim að þau hljóti að eiga eitthvað allt annað og betra skilið – og þau fara í sundur – skilja.

Þá fyrst byrjar nú ballið…

Þegar búið er að tilkynna börnum og fjölskyldu um ákvörðun parsins kemur oft í ljós að fjölskylda og vinir fara að skipta sér í fylkingar með eða á móti og það sem áður var svo gott verður nú að vígvelli og baráttu um hverjum á að taka afstöðu með.

Síðan kemur að praktísku atriðunum.

Hvað með húsið og bílinn? Bankabókina, skuldirnar? Hver fær að vera í húsinu og hver ætlar að kaupa hinn út, eða er kannski bara best að selja? Staðreyndin er að breyting verður á lífinu hjá öllum aðilum og misjafnt er hversu vel gengur að aðlagast.

Hvernig á að skipta börnunum á milli sín? Börnin verða því miður oft á milli í deilum foreldranna og þurfa oftar en ekki í dag að eiga tvenn jafnvel mjög svo ólík heimili með tilheyrandi streitu fyrir þau og dansi á milli ólíkra reglna og lífsgilda.

Hvernig er með umgengni barna á jólum og páskum? Fá báðir foreldrar börnin sín á þessum hátíðum eða er annað foreldrið með alla dagana?

Hvað verður þegar nýr maki kemur til sögunnar hjá öðru hvoru þeirra? Hafa börnin þá einhverjar skyldur gagnvart þeim aðila sem inn í líf þeirra kemur nú eða barna þess aðila?

Ferðalög? Eru börnin tekin með í ferðalögin og er samkomulag um það á milli skilnaðaraðilanna hvernig því skal háttað?

Og hvað með þegar farið er í aðrar sambúðir, hvernig er þessu þá háttað? Mátt þú taka þín börn með í ferðalag án þess að taka börn makans eða eiga allir að koma með?

Sumarfrí? Hvernig á að skipta sumarfríinu á milli foreldranna og eru aðilar tilbúnir til að mæta hvort öðru þar?

Hvað með meðlag? Er annar aðilinn með meira fé á milli handanna og er hann tilbúinn til að styrkja hitt foreldrið svo að barnið/börnin hafi svipaðan lifistandard og það hafði þegar mamma og pabbi voru saman?

Hvað með afmælin, ferminguna, útskriftirnar? Eru þær í sitthvoru lagi eða á barnið/börnin rétt á því að allir séu saman á þessum stundum og er það yfirhöfuð mögulegt?

Hvað með barnabörnin þegar þau svo koma? Gefum við saman árituðu Biblíuna í fermingunni eða gefum við sitthvora?

Og svo er það þetta með einmannaleikann á kvöldin og um helgar, vinskapinn, aðstoðina á erfiðum tímum, ferðafélagann, þann sem upplifði með þér lífið og veröldina og svo framvegis. Skipti það allt í einu minna máli en að byrja allt upp á nýtt með einhverjum öðrum aðila?

Þetta eru örfá af þeim atriðum sem margir standa frammi fyrir þegar að skilnaði og nýjum samböndum kemur, en gleymist stundum að horfa í þegar makinn er farinn að fara í taugarnar á þér.

En ég held að í mjög mörgum tilfellum sé hægt að snúa til baka og finna neistann sem áður var og kveikja þar bál að nýju í stað þess að setja svona marga aðila inn í breytingar sem eru öllum erfiðar. Það virðast einnig vera þannig að sirka 2 árum eftir skilnað hefðu mjög margir bara viljað hafa verið í gamla leiðinlega sambandinu sínu þar sem einhleypingslífið var ekkert svo spennandi eftir allt. Og svo er það einnig þannig að þú tekur alla gallana þína með þér inn í framtíðina og það gæti hreinlega klikkað að nýr aðili samþykki þá með brosi á vör og þá hefst sami hringurinn og endar í öðrum skilnaði!

Þetta eru mínar skoðanir og þú gætir átt allt öðruvísi skoðun á þessu og ég virði það fullkomlega, en fiðringurinn sem við leitum svo mörg að er oftast nær stundarfyrirbrigði og endist einungis jafn lengi og boðefnið sem kveikti hann, og þá tekur dapur raunveruleikinn við með öllum þeim verkefnum sem bíða þeirra sem í samband fara. Og þá er nú eins fallegt að vera búin að skoða vel hversu margt þið eigið sameiginlegt af lífsgildum og hvort að stefnan ykkar og ætlun í lífinu sé sú sama, þ.e. ef byggja á upp samband sem viðheldur neista og fiðringi til langs tíma.

Svo skoðum hvort hægt sé að laga til og breyta í gamla sambandinu þó að makinn sé eitthvað leiðinlegur og lítið smart, og hvernig væri amk að gefa því séns að það sé hægt að ná í gamlan og gleymdan fiðring áður en svona stór og afdrifarík ákvörðun er tekin elskurnar?

það borgar sig þegar til framtíðar er litið og verkefnanna sem bíða eftir skilnað – og trúðu mér ef þú leitar að einhverjum betri hinu megin við hæðina þá skal ég trúa þér fyrir leyndarmáli – það eru miklu fleiri froskar en prinsar og prinsessur þarna úti og neistinn til þeirra fljótur að slokkna hvort sem er þegar þér tekst ekki að breyta froskinum í prins/prinsessu. Home sweet home er stundum bara best (þó ekki alltaf)

Og ef þú ert í vafa með þitt líf og þín skref þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This