Skip to main content

Jæja hvað skal nú segja um þá tíma sem við lifum á?

Mér finnst einhvernvegin eins og við séum stödd í miðjum fæðingahríðum nýrra tíma og allt það sem gengið hefur á í heiminum þetta árið(og lengur) sé að sýna okkur hvar skortir á þekkingu okkar á eðli lífsins og tilverunnar, og ég tel að okkur sé ætlað að leiðrétta stefnuna sem við höfum verið á.

Ef ég tæki mælikvarðann á venjulegum gangi fæðingar myndi ég segja að við værum komin með ca 7 til 8 í útvíkkun en værum þó engan vegin tilbúin í fæðinguna sjálfa þó að öll ummerki séu um að nýtt líf sé að brjóta sér leið inn i þennan heim.

Ég hef rekist á margar greinar að undanförnu þar sem skrifað er um breytingar á himni sem urðu þann 21 desember og hvað þær tákna fyrir okkar heim og það er eiginlega alveg í stíl við þá tilfinningu sem ég hef varðandi fæðinguna sem ég tel að nú standi yfir.

Það er víst þannig að Satúrnus og Júpíter hittast núna í stjörnumerkinu Steingeitinni en þessar plánetur hittast aðeins á 20 ára fresti, en það sem er sérstakt við þetta nú er að þær eru svo sjaldan svona nálægt hvor annarri, svo sjaldan að það er aðeins á um 800 ára fresti. Þegar þessi teikn eru á lofti á það að boða nýja tíma í mannkynssögunni og í þetta sinn er hún boðberi um öld Vatnsberans. Fátt veit ég um þessar afstöður en finnst þær þó ótrúlega sannfærandi miðað við þá tíma sem við lifum.
Satt best að segja held ég að við finnum flest að breytingar eru í nánd, breytingar sem kalla okkur til breyttra aðferða og nálgunar við lífið í heild sinni.

Mín tilfinning er sú að við séum búin að gleyma svo mörgu af því sem okkur var kennt bæði í gegnum gamlar og góðar bókmenntir, trúarbrögð, listir og menningu. Við höfum gleymt því að standa saman og erum ekki alveg að gera okkur grein fyrir því að við erum öll greinar á sama stofni eða laufblöð á greinum stofnsins og að líf okkar byggist allt á honum.

Við gerum góðlátlegt grín að því sem andlegt er og trúum einungis því sem skilningarvitin okkar ná utan um þó vitað sé að við sjáum ekki allt litrófið í kringum okkur og að við skynjum ekki allar þær bylgjur og þá orku sem er umlykjandi okkur. Merkilegt er að í dag eru vísindin að „uppgötva“ margt af því sem löngu er vitað í andlegum efnum ef við bara skoðum forn heimspekirit og líklega er fátt nýtt hægt að uppgötva undir sólinni ef vel er að gáð.

En hversvegna þurfa Móðir Jörð og Alheimurinn allur að fæða fram ný viðhorf og nýja jörð? Er þetta ekki bara fínt eins og það er?

Svo að ég svari nú bara fyrir mig þá eru margar og þó nokkuð góðar ástæður fyrir því að því að ég tel.

Ef við byrjum bara á því að tala um hvernig við umgöngumst móður jörðu af vanvirðingu og viljum ekkert vita af því afli sem stýrir stjarnaher, höfum að ég tel hreykst upp í því að halda að við séum drottnarar alheimsins og að ekkert fær okkur sigrað, þar sem vísindin og æðri menntun (Hvað sem það svo er nú) eru okkar Guðir.

Okkur er sama þó að Móðir jörð berjist við að ná andanum vegna mengunar svo lengi sem við getum vaðið áfram á okkar nútíma hraða, og við horfum bara í hina áttina þó að helmingur jarðarinnar fái ekki að borða eða búi við hernaðaraðstæður og harðræði, og aðhöfumst fátt annað en að dæsa lítillega og borga mánaðargjöldin til UNICEF.

Flóttamannabúðir eru um allan heim þar sem sjúkdómar og ill meðferð fær að viðgangast án þess að við lyftum hendi og svona gæti ég talið upp endalaust líklega og flest erum við sek um andvaraleysi þegar að þessum aðstæðum kemur. Kærleikur okkar mannanna hefur kólnað og hin andlegu lögmál geta ekki lengur horft framhjá því og hafa sett okkur í skammarkrókinn.

Jarðskjálftar, eldgos, sprengingar, óveður, flóð og skriður eru algengar fréttir þetta árið og fellibyljir aldrei verið fleiri. En ekki vöknum við af dvalanum þannig að við fengum eins og eitt stykki alheimsfaraldur sem ætlað var það hlutverk að vekja okkur. En ég spyr – ætlum við að vakna eða halda áfram að sofa? Ætlum við að halda þeim venjum og viðhorfum sem við höfum skapað en eru ekki að virka, eða ætlum við að breyta gildunum okkar til hins betra og þar með viðhorfum sem vænlegri eru til velsældar framtíðarþegna okkar?

Árangur dagsins í dag er aðeins mældur í því hversu „langt“ þú nærð á hinu veraldlega taflborði og því hversu vel þér gengur að fá aðra til að horfa upp til þín. Ekki er horft til þess hversu mikla inneign þú átt í samkennd og tilfinningagreind eða heilindum og sannleika. Það er nú samt svo einkennilegt þegar allt kemur til alls að þá eru það hin smáu umhyggjuverk sem við framkvæmum í lífinu sem skipta máli fyrir velgengni okkar (karma) en ekki hinir háu og miklu titlar.

Faðmlag til þess sem þess þarfnast, matur til þess sem hungrar, stuðningur til þeirra sem syrgja og bros til þess sem engan á að eru auðævi hvers manns sem þá mannkosti hefur í farteski sínu.

Mér þótti forvitnilegt að heyra í fréttum um daginn að kvíði skólabarna hefði minnkað í Covid ástandinu og að þau svæfu betur. Ég get nú ekki sagt að það hafi komið mér á óvart því að vinnudagur barna er ómannúðlegur í dag og í raun mikið áhyggjuefni að mínu mati.

Þessi litlu grey eru rifin upp eldsnemma morguns frá nokkurra mánaða aldri og sett í barnapössun og leikskóla (fullur vinnudagur). Við tekur síðan skólinn, heimanámið, íþróttir og aðrar tómstundir, keppnir af ýmsum toga, verslunarmiðstöðvaferðir og skemmtigarðar og því miður verður frekar lítill tími eftir til samveru og samskipta innan fjölskyldunnar. Konur eru útkeyrðar af álagi sem ekki má viðurkenna og ungir karlmenn eru í tilvistarkreppu. En uss uss þetta má ekki tala um. Heimilisofbeldi og neysla hefur sjaldan verið meiri og úrræði vantar fyrir þá sem deyfa sársauka sinn með þessum hætti. Sjálfsmorð hafa aldrei verið fleiri en í dag en uss uss, við tölum ekki heldur um það nema svona spari.

Þetta Covid ár hefur kannski átt að kenna okkur að við þyrftum að endurskoða þær leiðir sem við höfum farið í nokkra áratugi og er beiðni til okkar um að við tökum upp betri mannleg gildi þó ekki væri nema til annars en þess að bæta líðan barna okkar og að skapa framtíðarkynslóðum andleg gæði og vellíðan.

Mér til undrunar hef ég heyrt raddir sem tala fjálglega um hversu skelfilegt það hafi verið fyrir börnin okkar að hafa ekki getað gert allt eins og venjulega þetta árið en þar er ég algjörlega ósammála. Hvar eiga börnin okkar að læra þrautseigju ef engar eru takmarkanirnar og allt er hægt að fá og gera öllum stundum? Og hvernig hefði þetta verið ef engin snjalltæki eða internet væru til staðar heldur einungis bækur, sögur og spilastokkar til að stytta sér stundir við?

Ég held bara að við höfum haft gott af því öll sem eitt að fá að kynnast því að ekki er allt sjálfsagt í heimi hér og að stundum ráðum við ekki við aðstæður þær sem lífið skapar okkur, og svo höfðum við gott af því að dvelja í meiri ró en hefur verið í mörg ár ef ekki áratugi.

Það eru forréttindi en ekki sjálfsagt að geta faðmað og kysst, að geta hist og átt gæðastundir með þeim sem okkur eru kærir eða ferðast hvert um heim sem er. Við ættum að meta þær stundir sem slíkar en ekki sem sjálfsagðan hlut. Allt sem verðmætt er í huga okkar förum við vel með og gefum því sérstakan sess og þannig ætti það einnig að vera með þá sem okkur eru kærir.

Annað mikilvægt sem ég hef lært á þessu ári fæðingahríðanna er að í miðju breytinga heimsins er tilvera okkar sem einstaklinga einnig hrist og hreinsað er til, og í mínu tilfelli hafa síðustu tvö ár heldur betur hrist vel upp í mér og minni tilveru.

Það sem helst stendur uppúr í þeim breytingum er líklega það að fylgja til grafar tveimur kvenstólpum sem fylgdu mér í gegnum lífið, eða móður minni seint á síðasta ári eftir mikil veikindi og á þessu ári kvaddi sú vinkona sem hafði verið mér við samferða frá tíu ára aldri og varla leið sá dagur að við værum ekki saman með börnunum okkar hér áður fyrr. Það fylgir því söknuður og tregi að kveðja slíka stólpa.

Góðir vinir hafa einnig á þessu ári flutt sig á milli staða og nýir vinir bæst í hópinn þegar aðrir hafa farið sem er víst lífsins gangur, og allir hafa þeir víst hlutverki að gegna í lífssögu okkar sem okkur ber að þakka fyrir.

Heilsan hefur verið eitthvað að stríða mér þetta árið og þessi stelpa hefur átt frekar erfitt með að viðurkenna þá staðreynd. Það er nú eitthvað svo einkennilegt að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og er heilsan eitt af því sem ég hef upplifað virðið á í dag.

En allt verður þetta til góðs með einum eða öðrum hætti að lokum og þannig er það með öll þau verkefni sem við fáum í fangið á lífsleið okkar – alltaf eitthvað gott sem kemur út úr öllu að lokum þó að ekki sé það annað en aukinn þroski og skilningur á mannlegum aðstæðum sem við fáum að launum fyrir harðræðið.

Það sem gaf mér tilgang mitt í öllum þessum breytingum var að ég fékk áhugavert hlutverk sem veitti mér mikla ánægju á árinu. Gjöf þessa fékk ég frá ókunnugum manni sem deilir með mér veraldarsýn minni og trú á umhyggju og loksins fannst mér ég fá tækifæri á því að færa þau gildi til alls heimsins! Tækifærið fékk ég í gegnum alþjóðlegu samfélagsmiðlaherferðina KIND20 sem hefur haft það að leiðarljósi meðal annars að færa fjölskyldur saman og lina þjáningar heimsins með umhyggjuverkum af ýmsum toga.

Eitt af þeim verkefnum sem við stóðum fyrir fór af stað í Desember en það var að færa öllum félagsmiðstöðvum landsins tillögur að gæðastundum fjölskyldunnar allan mánuðinn og var það von okkar að með þeim verkefnum næðu fjölskyldur að skapa samverustundir og auðga ímyndunarafl fjölskyldunnar. Þetta verkefni var gert í samstarfi með Samfési og Tveimur Grímum sem eiga svo sannarlega þakkir skyldar fyrir.

Erlendis hefur KIND20 staðið sig vel í því að deila út þessu sama verkefni og eins með því að útdeila matargjöfum til þeirra sem ekkert hafa á borðum sínum og hafa hafa hin ýmsu góðgerðasamtök komið til liðs við okkur þar. Eins hefur KIND20 vakið athygli á því sem vel er gert í heiminum með því að útnefna hetjur góðverkanna í hverju landi og hverri borg fyrir sig og fá þeir borðum skreytta orðu fyrir það að aðstoða náungann með ýmsu móti.

Íslendingar tóku svo sannarlega þátt í þessu umhyggjustarfi og voru yfir 20 þúsund manns frá Íslandi farnir að fylgjast með því sem við gerum á samfélagsmiðlum síðast þegar ég vissi (af 260 þúsund fylgjendum sem þá voru) og vonast ég til að þeim fjölgi stórlega á næsta ári. Ósk mín er einnig sú að við gætum saman skapað flóðöldu góðverka hér á landi með samstöðu og þátttöku allrar þjóðarinnar. Þá vonast ég einnig til að opinberir aðilar sjái sér fært að koma að borðinu með okkur því að aldrei hefur verið meiri þörf á alþjóðlegu samstarfi og samstöðu í kærleika en nú á þessum vátímum í veraldarsögunni.

Íslenska deild KIND20 var með beint streymi til Bretlands í sumar þar sem við kynntum Ísland með ýmsum hætti og hinn íslenski Kórónukór sem stofnaður var í miðjum Covid faraldri hefur heldur betur komið við sögu í öllu því sem gert hefur verið hér á vegum KIND20. Lag þeirra og titillag sönglagakeppni sem kennd er við John Lennon heitinn sem við stöndum að í Liverpool, eða „Together as one“ hefur nú þegar fengið yfir 18 þúsund áhorf á samfélagsmiðlum sem telst líklega nokkuð gott áhorf á íslensku myndbandi.

Já ég veit að ég er bullandi stolt af þeim árangri sem við höfum náð hér en betur má ef duga skal og mun næsta ár fara í að kynna nýja og spennandi þætti sem auðvitað snúa allir að því að bæta líðan heimsins.

Trú mín er sú að nú ættum við að líta á gömlu göturnar og finna aftur gömlu góðu gildin sem við höfum týnt í miðri glingurs fjársjóðskistunni og skoða hver hin raunverulegu gæði eru og hvað við getum lagt heiminum til í umhyggju og kærleika og styðja síðan við allt starf sem gerir heiðarlega tilraun til að dreifa þessum ómissandi þáttum mannlegrar tilvistar um heim allan.

Kind20 bar mig einnig erlendis til á árinu þrátt fyrir Covid og sóttkví, og hitti ég þar marga sem deila með mér áhuga á því að bæta heiminn með ýmsum hætti. Aukaafurðin af þessum ferðalögum mínum var sú að það opnuðust tækifæri fyrir stelpuna á því að fara í útrás með skrifin sín.

Ekki fór ég í sextugs afmælisferðina sem plönuð var með hluta fjölskyldunnar til Ítalíu í sumar því að Coronaveiran varð á undan mér þangað og ekkert varð heldur af stóru veislunni sem halda átti í haust. En afmælisdagurinn minn var yndislegur og kærleiksríkur frá upphafi til enda og nokkrar litlar afmælisveislur voru haldnar fyrir mig í vinahópunum. Ég fékk kveðjur úr öllum áttum og svo komu nokkrir góðir vinir sem glöddu mig með söng og kærleika sínum ásamt því að dóttir mín tók saman myndband sem gladdi hjarta mitt mikið.

Ég fór eins og aðrir landsmenn um landið okkar í sumar og gamli heimabærinn minn Seyðisfjörður var heimsóttur. Þegar ég nálgaðist Héraðið fann ég hvernig tárin trilluðu niður kinnar mér og ég varð meir vegna allra þeirra minninga sem komu upp í huga minn og ég fann hvernig rætur mínar eru bundnar við þennan landshluta.

Við eigum dásamlegt land og þjóð sem við kunnum stundum ekki að meta að verðleikum en ég held að við höfum þó öll séð hversu góða samstöðu og umhyggju við eigum til í hjörtum okkar nú fyrir jólin þegar gamli heimabærinn minn lenti í ótrúlegum hremmingum vegna skriðufalla. Það gladdi hjarta mitt mikið að sjá það hjartalag sem þjóðin og ráðamenn hennar sýndu við þær aðstæður.

Í raun þegar ég hugsa um það held ég að lífið, almættið eða móðir jörð sé að fara fram á það við okkur að við lifum alla daga með þeim hætti sem við sýnum þegar stóráföll dynja yfir okkar þjóð og hættum bara þessu rugli sem við stöndum stundum í. Óvild og hatur ætti að vera að baki okkar þegar og ef að augu okkar opnast fyrir því að við erum öll eitt. Þú ert ég, og ég er þú. Allt sem þú vilt að aðrir menn gjöri yður skuluð þér og þeim gjöra sagði meistarinn sjálfur Jesús Kristur sem ég get ekki túlkað með öðrum hætti en þeim að við séum öll eitt, ein hjörð á sama stofni alheimsins.

En nú ætla ég að hætta þessu rausi mínu að þessu sinni og segi bara:

Gleðilegt nýtt ár elskurnar,

Mætti árið 2021 færa okkur nýjar (gamlar) götur og gildi og frið í hjartað, og mættum við gefa kærleika okkar til alls heimsins og þiggja hann einnig.

Svo óska ég ykkur þess að þið verðið alltaf þið sjálf því að þið eruð bara yndisleg eins og þið eruð, og að lokum þætti mér æðislegt ef ykkur yrðu gefnar hellingur af glimmer og gleðistundum á því ári sem nú fer í hönd og enn meir ef þið fengjuð stóran skammt af knúsi, kossum og nánd á ári komandi.

Kærleikskveðja,

Linda

Pin It on Pinterest

Share This