Skip to main content

Í þessum mánuði hafa verið tveir dagar sem tileinkaðir eru konunni ástinni og elskendum, og ég verð að viðurkenna að ég verð bara hálf döpur á þessum dögum sem segja mér ekkert annað en það að ég hafi ekki einhvern við hlið mér sem dekrar mig og annast. 

En ekki heyra það sem ég er ekki að segja, mér finnst alveg frábært að fólk sé hamingjusamt og geti haldið uppá þessa daga með þeim sem þeir elska og ég samgleðst þeim svo innilega og af heilu hjarta.

En við hin þekkjum vel þessa einmannatilfinningu sem læðist inn eins og austfjarðarþokan sjálf gerði í mínum heimabæ og við finnum þessa köldu hendi einmannaleikans grípa í okkur og herða að og það er vont.

Hvað er það svo sem gerir það að við upplifum þessa köldu tilfinningu „einmannaleikann“ á þessum dögum?

Líklega eru til margar skýringar á því en sú sem mér finnst líklegust er að frá upphafi var okkur ætlað að vera í samfélagi og fá þörf okkar fyrir ást og umhyggju þaðan, eða kannski erum við alltaf að leita að upprunalega alheims kærleikanum sem við köllum hinum ýmsu nöfnum en ég kýs að kalla Guð.

Hver veit, en eitt er víst að það eru ákveðnir dagar sem fara verr í mig og líklega mörg okkar sem búum ein.

En hvað er til ráða á þannig dögum?

Eigum við bara að draga sængina upp fyrir höku og gráta úr okkur augun yfir væminni rómantískri bíómynd og vorkenna okkur?

Nei alls ekki að mínu mati. Lífið í allri sinni dýrð hefur upp á svo margt annað fallegt að bjóða og allt vex og dafnar sem við veitum athygli og það dásamlega er að við getum ráðið hverju við veitum þá athygli. Veljum að horfa á það sem við höfum eins og vini og fjölskyldu en ekki að því sem okkur skortir þó að það geti stundum verið smá snúið og ekki auðvelt á köflum.

En hvað breytist svo þegar við finnum þann eina/einu sönnu og einmannaleiki okkar hverfur(eða þannig)?

Jú samkvæmt grein sem ég las einhverstaðar á netinu fyrir ekki svo löngu síðan er það þannig að við fyllumst víst bjartsýni á lífið og tilveruna, verðum félagslyndari og frjálslegri á margan hátt sem líklega skrifast á það að oxytocin framleiðslan fer á fullt með tilheyrandi seytlandi hamingjutilfinningu.

Með sálufélaganum finnum við líka að okkur er óhætt að slaka á og við verðum rólegri, leyfum okkur kannski að vera meira berskjölduð og opin. Eins finnum við hvernig nándin verður meiri og við viljum svo gjarnan deila öllu með þessum sálufélaga sem við elskum að gera bókstaflega allt með.

Það er ýmislegt sem gerist í heila okkar við það að hitta sálufélagann og boðefni eins og dópamín, adrenalín og norepinephrine leika stórt hlutverk í því að binda okkur kirfilega saman ásamt því að serótonín upptaka í heila verður minni.

Við verðum brosmildari og mun þægilegri í umgengni ásamt því að við verðum duglegri að framkvæma eitt og annað í hinu daglega lífi og verðum mun lausnarmiðaðri í allri nálgun.

Spekingarnir segja að við förum í gegnum þrjú stig á ástarleið okkar. Í fyrsta lagi fyllumst við losta og á stigi tvö er það víst aðdráttaraflið sem öllu ræður og þriðja stigið gerir okkur háð hvort öðru segja þeir þannig að í eiginlegri eða óeiginlegri merkingu verður ástin okkar eiturlyf eða eins og segir í góðum texta „You’re like a coffee, you’re a drug I’m addicted to your love“ eða á okkar ylhýra „Þú ert eins og kaffi, þú ert eiturlyf og ég er háð/ur ást þinni“ (Hljómar mun betur á enskunni)

En hvað svo sem hæft er í því sem ég hef lesið og þykist vita, þá er það þannig að á dögum sem tileinkaðir eru ástinni finnum við einnig fyrir því hversu mikilvægur partur af lífinu það er að elska og að vera elskaður og er faktíst séð held ég að það sé það eina sem verulegu máli skiptir fyrir flest okkar í þessu lífi.

Í dag er því stundum haldið fram að við ættum að vera okkur sjálfum nægjanleg, elska okkur sjálf og ættum ekki að þurfa á mannlegri nánd eða sambands við annan einstakling að halda.

Ég held að ég verði þó að mótmæla þessu hástöfum og halda því fram að þeir sem slíkt segja hafi ekki upplifað að vera aleinir jafnvel svo árum skipti.

Svo er nokkuð algengt að við hreinlega lokum á tilfinningar okkar og þarfir, teljum okkur trú um að við þörfnumst einskis vegna ótta okkar við að gera mistök á kærleikans sviði.

Gefumst samt ekki upp og gefum Amor fleiri tækifæri, það er ekkert víst að skotið hans klikki næst.

En áður en að þessir dýrðarinnar rómantísku dagar skella á okkur að nýju vona ég að Amor hafi skotið okkur öll með ástarörvum í hjartað og að við sitjum sæl og glöð með boðefnabombu í heilanum á rómantískum stað – fyrir löngu búin að gleyma því hversu einmannalegir þessir rómantísku dagar geta verið.

Með ástarkveðjur til ykkar lesendur góðir,

xoxo

Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This