Skip to main content

Hvernig stendur á því að svo margir í þjóðfélagi okkar og reyndar víða um heim finna sig á svo einmannalegum og vonlausum stað að þeir sjá sér einungis fært að taka sitt eigið líf vegna vanlíðunar?

Hvað erum við að gera rangt?

Hvaða hlutverk höfum við tekið í burtu sem áður gáfu þessum aðilum tilgang sinn?

Eru fjölskylduböndin okkar orðin svo léleg að við finnum okkur óþörf í samskiptum við börn okkar afkomendur og vini? Eða er einmannaleikinn og hlutverkaskorturinn orðinn svo nístandi að okkur langar kannski ekki til að lifa lengur?

Núna að undanförnu hef ég heyrt af allt of mörgum tilfellum af þessum toga til að segja ekki eitthvað og vekja athygli á þessari sorglegu staðreynd sem virðist vera að festa sig í sessi um víða veröld þannig að sum lönd sjá sér ekki annað fært en að hafa sérstaka ráðherra sem fara með þessi málefni. Hér heima hefur þessum tilfellum tilgangsleysis og einmannaleika fjölgað mjög mikið og sjálfsvígum fer einnig fjölgandi þannig að við ættum kannski að fara að horfa til þess að bæta við einum ráðherra hér sem færi með þessi málefni. ÉG veit að ég má sjálf taka til mín margt af því sem ég skrifa hér og er svosem ekki stolt af því að viðurkenna það, en það að viðurkenna vandann er þó fyrsta skrefið í áttina að því að lagfæra ástandið.

Hvað er það sem veldur þessu?

Eru börnin okkar orðin of upptekin af sjálfum sér til að huga vel að þeim sem gáfu þeim lífið fyrir utan á þeim stundum þar sem þeir þurfa pössun eða öðrum greiðum að halda? eða er þeim kannski bara orðið sama? Og hefur kærleikurinn manna á milli almennt kólnað?

Hvar eru ömmurnar sem voru settar í öndvegi og sáu um matargerð og bakstur ásamt fræðslu afkomendanna?  Núna eru þær önnum kafnar við starfsferilinn og tómstundirnar ásamt félagsstörfunum sem taka drjúgan tíma, og enginn hefur tíma fyrir einn né neinn og almáttugur minn hvað við erum að tapa miklu með því að fórna því sem merkilegra er fyrir það sem skiptir litlu sem engu máli þegar allt kemur til alls.

Hvernig er með samband afanna við barnabörnin? eru þeir að kenna þeim að smíða, laga hluti og hvernig á að annast um fjölskyldumeðlimina eða draga björg í bú? Nei ég held að sömu atriði eigi við hjá þeim eins og hjá ömmunum, allt of uppteknir við hjómið eitt.

Því miður held ég að samskiptin og alúðin sem var hér áður sé svolítið að hverfa frá okkur og eftir sitja kynslóðir sem sjá bara engan tilgang með tilveru sinni hér. Og sjúkdómar eins og þunglyndi og kvíði ásamt mörgum öðrum nútímagreiningum verða allsráðandi án þess að uppruninn sé kannaður niður í kjölinn.

Streitan vex, einangrun vex, kærleikurinn kólnar og hver verður sjálfum sér næstur. Hjónaböndin verða einnota, metnaðargirnin allsráðandi og enginn er maður með mönnum öðruvísi en að vera í svo og svo stóru húsi með dýra flotta jeppann í hlaðinu, við erum með útbrunna einstaklinga og vandræðabörn sem falla ekki inn í rammana sem amerísku bíómyndirnar eru fyrirmyndirnar að.  Við leitum ekki að rót vandans sem er líklegast falin í því að frumþörfum  okkar er ekki mætt, en þær eru samkvæmt niðurstöðum frá félagsvísindakonunni Bréne Brown það að tilheyra, að vera elskaður og að þora að gera sig berskjaldaðan, því að það er einungis í berskjölduninni sem við sýnum okkur sjálf eins og við erum og frá þeim stað gefum við ást okkar umhyggju og kærleika, og þorum að taka áhættur.

Það tekur ekki langan tíma að hafa samband eða að kikka í heimsókn til foreldra eða barna ef þeir búa á sama stað og í dag er það ekki einu sinni erfitt að vera í sambandi hvar sem er í heiminum þar sem flestir hafa aðgang að interneti og myndavél og geta átt í samskiptum þaðan þegar annað er ekki í boði. Þannig að sambandsleysið og tilgangsleysið sem þeir sem eru einmanna upplifa er einungis hægt að skrifa á okkur sem gefum okkur ekki tíma til að sinna þeim sem í kringum okkur eru.

Svo breytum þessu og gerum betur – við getum það svo auðveldlega ef bara viljinn og umhugsunin um náungann er til staðar – það á enginn að finna sig afskiptan eða að hafa ekki tilgangi að gegna í lífinu.

Ég ætla að enda þennan pistil á nokkrum tilvitnunum í orð Bréne Brown og vona svo sannarlega að þau veki okkur til umhugsunar og viðbragða við þeirri ógn sem er ekki síður hættuleg en faraldurinn sem við glímum við í dag.

Það á enginn að upplifa sig án kærleika, umhyggju og tilgangs.

Bréne Brown tilvitnanir:

"Þeir sem finna sig elskuverða, sem elska og upplifa að þeir tilheyri einfaldlega 
trúa því að þeir séu verðugir þess að vera elskaðir og að tilheyra.“

„Við þurfum ekki að gera allt saman ein. Okkur var aldrei ætlað það. “

„Vanmetið aldrei þann kraft sem felst í því að við séum séð.“

Þar til næst elskurnar,
xoxo 
Ykkar Linda

Pin It on Pinterest

Share This