Stutt saga af sjálfstrausti.
Sá þessa sögu á netinu og ákvað að snúa henni yfir á okkar ágæta tungumál og tel að hún eigi erindi til okkar allra. Hlustum minna á fólkið í kringum okkur og hvað það vill segja um okkur, látum aðeins álit og orð þeirra sem færa okkur súpuna þegar við erum veik hafa áhrif á okkur þegar og ef við finnum að þau eru sanngjörn og rétt.
En hér kemur sagan:
Einu sinni fór ungur maður að hitta vitran mann og sagði við hann;
Ég er kominn til að leita ráða hjá þérvitri maður því að mér finnst ég verðlaus og mislukkaður og hef ekki lengur áhuga á því að lifa. Allir segja að ég sé mislukkaður á allan hátt svo ég bið þig Meistari, hjálpaðu mér!
Meistarinn leit á unga manninn og svaraði í flýti: Fyrirgefðu en ég er mjög upptekinn núna og get ekki hjálpað þér. Þarf að sinna mikilvægum erindum – síðan stoppaði hann leit hugsandi á unga manninn og bætti við- en ef þú ert til í að aðstoða mig mun ég með glöðu geði launa þér greiðann á móti.
Auðvitað skal ég aðstoða þig sagði ungi maðurinn, feginn að Meistarinn treysti honum og afskrifaði hann ekki. „Gott“ sagði vitri maðurinn og tók af fingri sér lítinn hring með fallegum steini.
Taktu hestinn minn og farðu á markaðstorgið! Ég þarfnast þess að selja þennan hring sem fyrst til að geta greitt upp skuldir mínar. Reyndu að fá sanngjarnt verð fyrir hann og ekki sætta þig við neitt minna en gullmynt. Farðu núna strax og komdu eins fljótt og þú getur.
Ungi maðurinn tók hringinn og hélt af stað. Þegar hann kom á markaðstorgið sýndi hann öllum kaupmönnunum hringinn en þeir sýndu honum lítinn áhuga. Og þegar þeir heyrðu að hann vildi fá gullmynt fyrir hann fóru sumir þeirra að hlæja og misstu allan áhuga. Einn kaupmaðurinn var þó nægjanlega kurteis til að útskýra fyrir honum að gullmynt væri allt of hátt verð fyrir svona hring, og að það væri mun líklegra að hann gæti selt hann ef hann sætti sig við kopar eða í mesta lagi silfurmynt.
Þegar ungi maðurinn heyrði þessi orð, komst hann í mikið uppnám vegna þess að hann mundi vel hvað vitri maðurinn hefði sagt varðandi söluverðið, gullmynt vildi hann og ekkert annað. Og þegar ungi maðurinn hafði þrætt allan markaðinn og fann ekki einn einasta kaupanda að hringum fór hann á bak hestinum og hélt af stað heim til vitra mannsins. Honum fannst hann gjörsamlega mislukkaður og leið hreint ekki vel að hafa ekki getað framkvæmt söluna fyrir vitra manninn.
Þegar hann hitti vitra manninn aftur sagði hann: ’Meistari, mér tókst ekki að framkvæma það sem þú baðst mig um. Í mesta lagi hefði ég getað fengið silfurmynt fyrir hringinn þrátt fyrir að þú segðir mér að sætta mig ekki við neitt minna en gullmynt en allir kaupmennirnir sögðu mér að hringurinn væri alls ekki svo mikils virði. Svo að ég er kominn til baka með hringinn óseldan.
Þetta er góður punktur sagði vitri maðurinn við unga manninn, við ættum auðvitað að láta meta hringinn áður en við seljum hann. Farðu og hittu gullsmiðinn og láttu hann meta verðgildi hringsins. En ekki selja honum hringinn sama hvað hann býður þér fyrir hann, komdu svo strax til baka til mín.
Ungi maðurinn tók hestinn og lagði aftur af stað og nú til gullsmiðsins. Gullsmiðurinn rannsakaði hringinn mjög vel undir smásjá og setti hann síðan á vogarskálarnar. Loksins eftir að hafa velt hringnum fyrir sér í langan tíma sneri hann sér að unga manninum og sagði:
Segðu meistara þínum að ég geti aðeins gefið honum 58 gullpeninga fyrir hann ákkúrat núna, en ef hann getur gefið mér aðeins lengri frest get ég borgað honum 70 gullpeninga fyrir hringinn.
’70 gullpeninga?!’ át ungi maðurinn upp eftir honum og hló, þakkaði síðan gullsmiðnum fyrir og hraðaði sér til vitra mannsins. Þegar vitri maðurinn heyrði sögu unga mannsins af verðlagningunni sagði hann:
’Mundu vinur minn að þú ert eins og þessi hringur. Dýrmætur og einstakur! En aðeins sérfræðingar geta metið verðgildi þitt réttilega. Svo hví ertu að reika um markaðinn og hlusta á skoðanir þeirra sem ekkert vit hafa á því hversu dýrmætur þú ert?
Knúss,
Ykkar Linda