Skip to main content
Uncategorized

Viðtal á bleikt.is

By febrúar 26, 2014apríl 18th, 2019No Comments
Vonar að allir landsmenn uppgötvi mátt markþjálfunar!

01.10.2013 Ritstjórn

Linda Baldvinsdóttir markþjálfi með meiru er ein jákvæðasta kona sem við höfum hitt! Hún segir að með visku áranna verði hún sáttari og sáttari og hún telur að við ættum að hætta að einblína á útlit og meira á innihald. Hvað telur hún það besta og það versta við að eldast?

Linda segist vera stolt þriggja barna móðir og „hrikalega stolt amma þriggja barnabarna,“ og segist hún elska þau öll ótakmarkað. Er Linda einhleyp?  „Já, eins og þeir segja – hamingjusamlega einhleyp í dag en það mætti þó gjarna breytast,“ segir hún og hlær.

 

Linda Baldvinsdóttir, markþjálfi

Linda Baldvinsdóttir, markþjálfi

 

Áhugann á markþjálfun fékk hún í gegnum árangursfræði og jákvæða sálfræði en henni kynntist hún hjá Tony Robbins sem talinn er einn færasti markþjálfi í heimi: „Ég heillaðist af því hvernig við getum hámarkað árangur okkar á öllum sviðum lífsins, ekki bara veraldlegum heldur líka andlegum og sálarlegum. Ég fann að reynsla mín úr lífinu gæti nýst vel við slík störf, þess vegna ákvað ég að læra markþjálfun. Að því námi loknu fékk ég alþjóðlega ACC vottun á methraða. Ég veit ekki betur en að þetta met mitt standi enn! Ég hef svo bætt við mig og er búin að læra NLP fræði og er í dag NLP Practitionar Coach ásamt því að vera markþjálfi. Þegar þú þarft að lagfæra eitthvað eða nálgast það sem þig raunverulega langar að verða vinnur þetta tvennt gríðarlega vel saman. Við verðum nefnilega aldrei of gömul til að læra eða til að bæta hugsanir og breyta viðhorfum í lífinu. Um það snýst þetta jú allt saman, við erum það sem við hugsum og höldum að við séum.“

Námskeið og þjálfun

Linda býður upp á einkatíma í markþjálfun fyrir einstaklinga og einnig hefur hún haldið námskeið um það að verða besta útgáfan af sjálfum/sjálfri þér. „Þetta hefur gengið vonum framar og við höfum séð aðstæður fólks gerbreytast fyrir framan augu okkar. Helstu námskeið sem ég hef staðið að eru Coaching Camp námskeiðin vinsælu, sjá www.cochingcamp.is, samstarfskona mín þar er Jóna Björg Sætran.“

Einnig hafa þær stöllur boðið upp á kvennanámskeið: „Já, þau eru mjög vinsæl. Þá förum við út fyrir borgina eina helgi í fallegu dekrandi umhverfi þar sem við leitumst við að bæta okkur. Við bjóðum líka upp á það sem við köllum mæðgnanámskeið. Mér persónulega finnst þau afar spennandi. Eins og margan grunar eru samskipti mæðgna og tengdamæðgna stundum stirð og erfið og gott að fá heila helgi til að bæta og styrkja þau samskipti. Þar höfum við miðað við að stelpurnar séu ekki yngri en 18 ára.“

Úr ofbeldissamböndum!

Linda hefur í samstarfi við Theodór Birgisson, hjónabands- og samskiptaráðgjafa, verið með námskeið sem heitir „ÉG ER”. Linda segir að þau Theodór séu svo að byggja upp námskeið sem mun hjálpa fólki að komast úr aðstæðum þar sem andlegt ofbeldi er ríkjandi. „Við vitum að allt ofbeldi byrjar með andlegu  ofbeldi,“ segir Linda. „Að okkar mati þarf að skilgreina þetta betur hér á landi og þá ekki síst hvernig bregðast skal við finni fólk sig í þessum aðstæðum. Spennandi málaflokkur þar sem við teljum okkur geta lagt gott til, enda vitum við að til eru leiðir út úr andlegum ofbeldissamböndum og í þeim efnum er til mikils að vinna ekki satt?

Svo er ótrúlega spennandi helgarnámskeið á Laugarvatni núna í byrjun október sem við Katrín Erla samstarfskona mín kjósum að kalla „heilun fyrir hjarta þitt” Þar ætlum við að taka mjög fáar konur í hóp og styrkja hverja og eina og heila hjartasárin í leiðinni…Allar upplýsingar um þessi námskeið og fleira er að finna á síðunni minniwww.manngildi.isEinnig HÉR á Facebook

Pistlar og samskipti

Linda hefur um nokkurt skeið skrifað pistla á Bleikt.is og á fleiri síðum ásamt því að hún var með „Spurt & svarað“ á Bleikt þegar vefsíðan hóf göngu sína árið 2010.

Um hvað skrifar Linda helst? „Jú, ég skrifa um hvað eina sem dettur í höfuðið á mér hversdags. Þegar betur er að gáð skrifa ég mest um samskipti í víðu samhengi. Staðalímyndir eru mér hugleiknar og í framhaldi af því kröfur sem við og aðrir gerum til okkar og lífsins í heild. Kröfur sem mér finnast varla heilbrigðar oft. Mér finnst firring einkenna okkur stundum. Allt skal vera eins og í amerískri bíómynd, allir staðlaðir, umbúðir meira mál en innihald. En kannski að ein mjóróma rödd sem sér lífið frá öðru sjónarhorni, eins og mér finnst ég stundum gera, geti mögulega bjargað niðurlægðri manneskju sem finnst hún einskis nýt, jafnvel ófríð ef ekki ómöguleg. Ég vill reyna að takst á við lífið í öllum birtingamyndum út frá mínu sjónarhorni. Kannski verða einhverjir sárir og finnst ég stóryrt og dómhörð í pistlum mínum, en það er allt í lagi …við höfum hvert okkar eigin heimssýn.“

Hvað er það besta og versta við að eldast?

„Stórt er spurt…að eldast,“ segir Linda hugsi: „Er það ekki litið hornauga í dag? Nú skulu allir vera hrukkulausir og unglegir fram eftir öllu og þar beitum við öllum ráðum. Gott sem ég heyrði um daginn…það vilja allir verða gamlir, en enginn vill vera það. Er ekki heilmikið til í þessu?“

Linda heldur áfram: „Mér finnst hvert ár sem ég fæ dásamlegt. Hver hrukka og grátt hár sem ég fæ er merki til mín um að Guð sé mér góður. Og það besta er að mér finnst ég yngri núna en ég hef nokkru sinni verið, hvort sem ég er að tala um líkamlega, andlega eða útlitslega. Lífið hefur fært mér mörg verkefni og þau hafa að mínu viti fært mér andlega burði og fordómaleysi sem við „gamla“ fólkið höfum kannski á stundum fram yfir hin yngri, eðlilega auðvitað.“

Er hún þakklát fyrir góða heilsu og gott fólk í kringum sig: „Fyrir það er ég svo mikið þakklát. Aldurinn hefur svo kannski kennt mér að vera sátt við Guð og menn, en hvoru tveggja elska ég án skilyrða. Það býr gott í öllum og kjarninn í okkur er fullkominn og frábær og lífið er ljúft og glimmerstundum stráð ef við bara viljum sjá það þannig. En það er líka oft hart og sárt og þá reynir á að við nýtum gæðastundir lífsins sem þó eru til staðar því að það mun færa okkur nær lækningu sára okkar.“

En ókostirnir?

„Ókostirnir segirðu… kannski að í dag er ekki töff að vera komin á vissan aldur og reynsla þeirra eldri ekki alltaf metin að verðleikum,“ segir Linda. „Fimmtugir og eldri fá varla vinnu en það á ég reyndar mjög erfitt með að skilja. Við búum í þjóðfélagi æskudýrkunar og þess vegna held ég að þetta komi til. En mér finnst vera að rofa til og yngra fólkið leitar æ meira í smiðju okkar gamlingjanna eftir visku og þekkingu þegar lífið reynist ekki eins klippt og skorið þegar kafað er undir yfirborðið. Þegar við komumst til vits og ára lærum við að meta lífið í allri sinni dásamlegu mynd og höfum litla þörf fyrir skilgreiningar annarra á tilveru okkar. Við erum bara við, og njótum þess að vera til sama hvað aðrir segja…sem er dásamlegt frelsi!“

 

linda3

 

Hvernig sér Linda framtíðina fyrir sér?

„Ég sé hana baðaða í glimmerstundum og hamingju með fólki sem mér þykir vænt um! Þarna verð ég vonandi búin að finna þann eina sanna sem stendur með mér í blíðu og stríðu, Ég vona líka að allir landsmenn uppgötvi mátt markþjálfunar, þess að hafa sinn eigin markþjálfa þegar lífsskrefin eru tekin eins og stjörnurnar í Hollywood eru auðvitað löngu búnar að uppgötva. Ég vona að framtíðin beri með sér aukið umburðalyndi okkar gagnvart hvert öðru, að við sjáum hversu tengd við erum og að það sem við gerum öðrum slæmt, erum við að gera okkur sjálfum. Sem sagt, ég sé fyrir mér kærleiksríkari og viskumeiri framtíð þar sem andi og sál verða tekin fram fyrir líkama og lúkk…Elskum, umföðmum hvert annað og verum hvert öðru góð! Þá gengur þetta allt svo miklu, miklu betur!“ segir þessi glaðlynda og orkumikla kona.

Pin It on Pinterest

Share This