Skip to main content

 

Byrjum á byrjuninni. Hvaðan er Fanný?

Ég, Fanný Mjöll Pétursdóttir, er uppalin í Breiðholtinu en fæddist í Stykkishólmi fyrir 33 árum síðan, og er ein af fjórum sammæðra systrum og er yngst þeirra. Ég á eina litla 5 ára stelpu og við búum tvær saman í fallegri íbúð í Breiðholtinu.

Við ætluðum að hittast og ræða um ferðalag sem þú hófst fyrir átta árum síðan. Hvað viltu segja okkur um það?

Ég var allt of þung og ákvað að breyta um lífsstíl fyrir 8 árum síðan og létti mig um heil 75 kíló. Ég hélt þeirri vigt næstu árin og þyngdist ekkert á meðgöngunni td.

Svo fór ég að bæta á mig eftir að ég fór að vera heima með dóttur minni og bætti á mig 20 kílóum á einu og hálfu ári  og kannski gott betur. Ég tók þá ákvörðun því árið 2017 að fara í  magahjáveituaðgerð en vinkona mín hafði áður farið í þannig aðgerð .

Í heildina er ég búin að missa yfir 100 kíló á þessum átta árum. U.þ.b. 50 kg. sjálf og 50 kg. með hjálp aðgerðarinnar ásamt því að 13 kíló af lausri aukahúð voru tekin af mér í nokkrum lýtaaðgerðum sem Ágúst Birgisson framkvæmdi.

Fyrsta aðgerðin sem Ágúst gerði á mér var hringsvuntuaðgerð þar sem tekin voru 8 kíló af aukahúð og restin af þessum 13 kílóum voru tekin af lærum og höndum. Það síðasta sem ég þurfti svo að gera var að fara í brjóstalyftingu með fyllingu.

Ég var 2ja ára þegar ég byrjaði að þyngjast og þegar ég var 6 ára var ég send í rannsókn þar sem ég var mjög  hávaxin og þung. Þar var ég tekin í viðtal hjá geðlækni sem sagði að ég væri með þunglyndi en það þótti allt of snemmt að fara að setja 6 ára barnið á lyf og þekkingin á þeim tíma kannski ekki eins mikil varðandi lyfjagjöf til barna eins og nú er. 12 ára gömul var ég orðin yfir 100 kíló og fann mikið fyrir þunglyndinu og kvíðanum en fékk engin lyf fyrr en ég var 16 ára.  Þá fór ég fyrst á þunglyndis og kvíðalyf sem hjálpuðu mér mikið.

Ég var ekki lögð í einelti vegna þyngdar minnar og fannst ég frekar fá stuðning frá krökkunum í bekknum mínum sem voru að passa uppá mig. Ég varð auðvitað samt stundum fyrir stríðni vegna þyngdarinnar en ekkert sem situr eftir þannig séð.

Mér gekk vel í skóla þegar ég treysti mér til að mæta þangað sem var alltof sjaldan. Mér leið alltaf frekar vel í skólanum þegar ég var komin á svæðið. Ég var var full vanlíðunar á þessum árum og þurfti að leggja mig stundum á daginn þannig að ég mætti illa í skólann. Félagslega hliðin var samt þokkaleg og ég átti fínar vinkonur.

Ég held að sjálfsmyndin mín hafi alla tíð verið frekar léleg og hún er eitthvað sem ég þarf enn að vinna með og laga betur.

Ég hugsaði stöðugt um að ég myndi aldrei ná að grenna mig þegar ég var yngri og þessi aukakíló voru svo óyfirstíganleg í huga mér og lögðust hreinlega mjög þungt á sál mína. Ég var bara gjörsamlega búin að gefast upp á því að reyna að ná öllum þessum  kílóum af mér.

Þegar ég svo grennti mig hugsaði ég einungis um að missa 5 kíló í einu en ekki öll 100 kílóin og þannig náði ég mér niður um þessi 75 kíló í upphafinu með því að huga að breyttum lífsstíl og hugsun í stað þess að vera að hugsa einungis um að megra mig.

En hvernig leið þér innan um aðrar stelpur?

Mér leið alls ekki alltaf illa innan um þær en ég fann alveg fyrir því hvað ég var miklu hærri og þyngri en þær, Ég átti í erfiðleikum með að finna flott föt á mig og að vera eins og þær, þannig að ég fór að einangra mig á unglingsárunum. Ég vildi helst ekki fara á böll eða svoleiðis og fann það svo þegar ég byrjaði að bæta á mig aftur eftir að hafa tekið þessi 75 kíló af mér að ég hafði þessa sterku tilhneigingu til að einangra mig. Ég hætti að vilja fara í jólaboð og afmæli vegna þess að ég upplifði svo mikla vanlíðan og skömm yfir því að hafa bætt aftur á mig.

Hvað með hitt kynið?

Ég var var lítið að deita og vildi sjaldan fara á böll og þannig, a.m.k ekki fyrr en eftir grunnskólann. Þegar ég var svo orðin 27 ára kom barnsfaðir minn inn í líf mitt. Hann var sá fyrsti sem ég gat treyst og gefið hjarta mitt. Ég mjög erfitt með að gefa traust mitt og  hjarta svona yfirleitt.

Ég var búin að þekkja hann í mörg ár og þegar við byrjuðum að deita var ég búin að missa þessi upphaflegu 75 kíló. Við vorum mjög fljót að fara í samband og sambúð og  vorum saman í 6 ár en slitum samvistum fyrir stuttu síðan.

Mér leið alltaf vel með honum en mér fannst rosalega erfitt að sýna honum líkama minn eða labba um nakin heima hjá okkur öll þau ár sem við vorum saman. Þegar ég sagði vinkonum mínum frá þessu þá urðu þær mjög svo hissa því að þeim fannst svo lítið mál að sýna sínum mönnum líkama sinn.

Ég er óhræddari í dag að láta sjá mig  og þori loksins að fara í sund eftir þessar aðgerðir hjá Ágústi, en ég hafði ekki farið í sund frá því að ég var lítil stelpa. Ég lét mig svo hafa það um daginn að prófa að fara með dóttur minni og það var bara ótrúlega gaman. Ég er samt mjög meðvituð um líkama minn enda er ennþá smá aukahúð á mér sem enginn sér líklega nema ég, en það truflar mig engu að síður.

Stóri draumurinn minn var að losna við þessa aukahúð sem var eftir þegar kílóin höfðu fokið og ég fór að leita á netinu að því hver væri bestur í faginu. Það var mikið og vel talað um Ágúst á þeim síðum sem ég skoðaði og svo var lögfræðingur sem ég þekki sem var mikið að vinna að málum tengdum lýtalækningum sem sagði mér að hann væri toppmaður í faginu.

Ég var alveg rosalega ánægð með allt í kringum aðgerðirnar, virkilega ánægð. Þær gengu allar mjög vel og ekkert sem kom uppá eftir þær. Þjónustan öll til fyrirmyndar og ég mæli hiklaust með Ágústi þar sem mér finnst hann mjög vandvirkur, fagmannlegur og gerir allt til að manni líði  sem best í þessu ferli.

Mér líður miklu betur eftir að hafa látið drauminn minn ,rætast en skömmin er enn mikil og ég þarf komast á þann stað að geta sæst fullkomlega við fortíð mína. Ég get verið mjög grimm við mig og stundum finnst mér ég enn vera of þung þannig að hausinn kemur ekki alveg á sama hraða með mér í ferlinu, það tekur hausinn semsagt lengri tíma að jafna sig en líkamann segir Fanný og brosir.

Finnst þér að þú hefðir þurft að vinna með andlegu hliðina á sama tíma og þá líkamlegu?

Ég mæli hiklaust með því að líkaminn og andlega hliðin sé tekin fyrir á sama tíma því að þetta eru svo stórtækar breytingar sem maður fer í gegnum og mjög líklegt að sjálfsmyndin sé svo brengluð að maður þurfti hjálp til að breyta henni enda var ég búin að vera með ljóta mynd af sjálfri mér í svo langan tíma og tel að fyrir mig sé sjálfsvinna algjörlega nauðsynleg samhliða líkamlegum breytingum.

Finnst þér þú vera komin út í öfga með aðgerðirnar?

Nei ég vil ekki meina það. Ég vissi að ég þyrfti að láta laga þetta eftir að hafa misst öll þessi kíló og núna er ég ekki að hugsa um fleiri aðgerðir, ætla semsagt ekkert að láta laga nefið þó að það mætti alveg breytast segir Fanný og hlær.

Er lífið betra eftir þessar aðgerðir Fanný?

Já svo miklu betra,. bara svart og hvítt. Þunglyndið hefur lagast og þó að ég taki stundum upp gömlu þunglyndistaktana þá hef ég getað gert allt sem mig hefur langað til að gera og finn mikinn mun á mér. Ég á mun auðveldara með alla hreyfingu í dag en það reyndist mér mjög erfitt með öll aukakílóin utan á mér. Ég get líka keypt mér flott föt í litlum stærðum í dag. Yfirleitt tek ég stærð Medium en hef þó lent í því að komast í stærð XS. Bara það að  fara inn í líkamsræktarstöðvar og verslanir er allt annað líf eftir aðgerðirnar og kílóamissinn. Ég hreinlega elska að kaupa mér flott föt og er verslunin Cocos í Grafarvoginum í miklu uppáhaldi hjá mér ásamt Vero Moda og fleirum.

Er eitthvað sem þú vilt sjálf koma á framfæri til þeirra sem lesa þetta viðtal?

Já það er stundum svo mikil dómharka í fólki varðandi lýtalækningar og það sama fólk er duglegt að segja þér að vera ekkert að pæla í þessu, að þú þurfir ekkert að vera að standa í þessu.  Það fólk sá samt ekki hvernig ég  leit út undir fötunum sem ég klæddist.

Ég gekk í brjóstahaldara með púðum vegna þess að brjóstastæðið var komið svo neðarlega eftir þyngdartapið að Ágúst þurfti að setja púða ofan á til að reyna að hækka það. Og ég var svo dugleg að fela það sem mér fannst ekki fallegt þannig að þeir sem voru í kringum mig höfðu kannski ekki hugmynd um það hvernig mér leið með mig eða hvernig ég yfir höfuð leit út undir fötunum. Ég fór td aldrei í hlýrabol eða bikini en það geri ég í dag.

Þannig að ég hvet alla til að hlusta á sína eigin líðan og gera bara það sem þeir vilja gera sjálfir, og hvet þá til að lifa sínu eigin lífi en ekki annarra. Láta þessa eilífu skömm einnig fjúka  og svo er spurning hvort að við séum kannski sjálf okkar verstu dómarar og ættum bara að láta þá dómhörku frá okkur  þó að það sé hægara sagt en gert.

Á skalanum 0-10 ef núllið er sjálfstraustið þitt fyrir aðgerð og tíu hið fullkomna sjálfstraust? 

Ég var örugglega í núllinu fyrir aðgerðirnar og er líklega komin í svona 7 núna, sjálfstraustið er svo miklu miklu  betra en það var.

Fólk bregst líka öðruvísi við mér og kannski er það mest vegna þess að ég hef auðvitað breyst sjálf.

Í dag hef ég áhuga á því að lifa lífinu, taka þátt í félagslífi og samfélaginu þannig að þunglyndið hefur lagast mikið á meðan áhugi minn á lífinu og tilverunni hefur aukist umtalsvert.

Framtíðardraumarnir?

Mig langar að mennta mig, taka bókarann, hugsa vel um barnið mitt, vera hamingjusöm og njóta lífsins alla daga.

Ég þakka Fanný fyrir að segja okkur sögu sína, óska henni til hamingju með árangurinn og horfi á eftir henni hnarreistri fara út í lífið með hjartað stútfullt af framtíðardraumum.

 

Linda Baldvinsdóttir

manngildi.is

Pin It on Pinterest

Share This