Uncategorized

Batablogg Maríu – kvíðinn

By December 14, 2016 No Comments

kvidinn

Kvíði

Kvíðinn, ég gæti skrifað heila bók um hann.
Við könnumst ótrúlega mörg við það að kvíða fyrir ákveðnum hlutum og hef ég séð marga pistla skrifaða um kvíðann.
Ég er með  þennan “venjulega” kvíða og svo er ég líka með „ofsakvíða“ sem ég þarf að kvíðastillandi lyf við í verstu köstunum.
Kvíðinn birtist bara án þess að gera boð á undan sér og blossar upp við ótrúlegustu aðstæður.

Það kemur fyrir að ég æli þegar ég er í kvíðakasti. Einu sinni þurfti ég t.d að fara í bankann en  ældi 4 sinnum áður en ég komst þangað,  og ég hef ekki hugmynd um afhverju þetta var svona mikið mál fyrir mig.
Ég tek grátköst og fæ svimaköst, en það eru svipuð einkenni og koma upp  þegar hjartaáfall á sér stað, enda hef ég haldið nokkrum sinnum að ég væri að deyja þegar þessi köst koma.
Ég hef mínar aðferðir í dag sem hjálpa mér í þessum aðstæðum. Það getur vel verið að þær virki kannski bara fyrir mig en ekki fyrir aðra sem eru í þessum sporum.
Stundum er kvíðinn svo mikill að ég get ekki svarað í síma eða talað við nokkra manneskju. Ég hef þó nokkuð oft þurft að hætta við að hitta vini eða fjölskyldu vegna kvíðakasta sem ég tek þegar ég er að reyna að komast út um útidyrnar heima hjá mér, og ég er endalaust þakklát fyrir þolinmæði þeirra sem ég svík vegna þessara aðstæðna. Það hlýtur að vera erfitt að halda sambandi við manneskju sem getur ekki svarað þér eða hitt þig þegar þið hafið planað það.

Ég vill alveg hitta fólk og svara þeim þegar síminn hringir, en stundum hreinlega treysti ég mér ekki til þess.  Þar er kvíðinn að hamla mér og mig langar svo oft til að segja við þau “þetta er ekki útaf þér, þetta er ég sem er ekki að virka rétt”.

Það er oft erfitt að heyra “hvað meinaru, komdu bara ! þetta er ekkert mál, hættu þessu rugli”  því að ég vil af öllu mínu hjarta hætta þessu rugli og ég vildi óska þess að það yrði ekkert mál fyrir mig að fara hvert sem er, trúðu mér!
Það hjálpar sjaldan að pína mig á staðinn, mér líður þá bara illa og get þá ekki hugsað mér að fara aftur á staðinn. Ég þarf að vera tilbúin sjálf.

Þegar ég segist ekki geta komist eitthvert þá líður mér mjög illa, mér finnst það svo ótrúlega sárt og verð sár útí sjálfa mig að þurfa að hætta við vegna kvíðans. En stundum þarf ég bara að vera ein, sleppa því að svara í símann eða fara út, það er bara þannig.

Það hefur komið fyrir að ég hef tekið á mínum stóra og látið mig hafa það að fara út og verð ótrúlega ánægð eftir á að hafa gert það, en stundum líður mér bara þrefalt verr og ég get með engu móti vitað hvort mun gerast.

Ég fer stundum yfir það hvað ég ætla að segja í höfðinu á mér til að samtalið geti orðið sem eðlilegast og hnúturinn gæti minnkað eitthvað í maganum.

Það sem hjálpar mér mest hvað varðar kvíðann er að plana daginn í smáatriðum.  Hvenær ég fer í sturtu og hvenær ég set í þvottavél og í raun öll atriðin sem liggja fyrir þann daginn. Ég passa mig samt á því að ætlast ekki til of mikils af sjálfri mér hvern dag.
Ég skrifa lista og stroka út atriðin af honum jafnóðum og ég hef framkvæmt þau.

Atriði eins og það að fara í sturtu og undirbúa matinn en ef ég næ ekki að klára öll atriðin þá fara þau aftur á listann daginn eftir

Með því að hafa allt planað verð ég rólegri yfir daginn, en ef það koma einhverjar óvæntar uppákomur þá kemur smá kvíðakast. Þá er það besta í stöðunni að anda rólega og plana listann uppá nýtt.

Mér finnst gott að minna mig á það að ég er ekki ein, við erum alltof mörg sem berjumst við kvíðann. Sumir þurfa lyf en aðrir ekki.

En ef þér finnst kvíðinn hamla þér í daglegu lífi endilega leitaðu þá ráða hjá lækni og ekki bíða með það.

Öll vinnum við á kvíðanum með mismunandi hætti og ef  það sem þú gerir hjálpar þér við að hafa stjórn á kvíðanum, gerðu þá það!
En hvernig getur maður losnað undan kvíðanum?

því get ég ekki svarað að öðru leiti en því að við verðum að læra að lifa með honum, meta aðstæður hverju sinni og ætlast ekki til þess að  geta allt.

Allir geta eitthvað þó að enginn geti allt.

Og þú ert sko alls ekki verri manneskja þó að þú þjáist af kvíða.
Ást á ykkur <3

María

Hér má sjá bloggið hennar Maríu í heild sinni

Pin It on Pinterest

Share This