Ég Þráði bata

13239193_1338184752862070_2410172683283952993_n

Eftir  sjálfsvígstilraunina mína þráði ég ekkert meira en að ná bata.
Ég vildi auðvitað að það gæti  gerst á einni viku og að ég yrði sama stelpan og ég var áður semsagt ánægð með lífið.
Eitthvað gekk nú samt illa að ná fullkomnum bata svona fljótt og varð ég orðin mjög óþolinmóð. Leið á því að vera ekki alltaf brosandi og hamingjusöm.  Beið einnig eftir að hugsanirnar um allt það slæma færu að fara svo ég fór að leita í allar áttir að skjótfengna batanum mínum.

Þar komum við að tímabili sem ég er ekki stolt af og vildi að ég gæti sagt að þetta hefði aldrei gerst, en því miður þá valdi ég fljótlegu leiðina og fór í kolranga átt.
Ég horfði á  krakkahóp sem voru alltaf svo glöð og áhyggjulaus, lífið virtist svo auðvelt hjá þeim og allt gekk upp eitthvernvegin að ég hélt og mér sýndist hjá þeim. Mig langar að taka það strax fram að auðvitað var það ekki þannig og bið ég alla þá sem lesa þetta blogg mitt að aldrei leita í þessa átt, því hún er röng og skemmandi. Þessi  hópur djammaði mikið og alltaf voru partý og stuð sem mér þótti rosalega spennandi á þessum tíma og hljómaði vel fyrir mig þar sem ég sá auðvelda leið til þess að líða vel,  en hópurinn sem ég er að tala um eru þeir sem villtust af leið og leituðu í  fíkniefni.

En þarna hélt ég að ég væri búin að fá og finna tækifæri á  bataleið sem virkaði strax svo að ég prufaði. Áhyggjurnar hurfu reyndar, en bara í smá stund á meðan efnið var í líkamanum. Mér fannst merkilegt líka hvað ég var með mikið sjálfstraust þegar eitrið flæddi um æðar mér.
Ég fór svo sem ekki langt ofan í þennan fíkniefnaheim en alveg nógu langt til að sjá margt ljótt en ég var blind á það á þessum tíma.
Mér fannst þetta bara fín leið á meðan á því stóð en um leið og djammið var búið sökk ég enn lengra niður í vondar hugsanir og líðan sem ég hélt reyndar að væri ekki möguleiki á að gæti orðið verri.
Ég fór ekki í harða neyslu, kynntist aldrei sprautum eða jafn hörðum efnum og margir fíklar festast í.
Sem betur fer var ég stoppuð af snemma á þessari braut því ég veit ekki hvernig ég hefði endað hefði ég ekki haft yndislegt fólk í kringum mig, fólk sem vísaði mér veginn til baka.
Eftir að þessu tímabili lauk fór ég loksins að hlusta á elsku sálfræðinginn minn í Barnahúsi og orð hennar og ráð voru ekkert svo vitlaus eftir allt saman og vá, hún á stóran hluta í mér í dag.

Með þessum orðum vildi ég segja ykkur hversu mikið ég þráði batann og hversu klikkaður maður getur verið þegar maður virkilega vill eitthvað og fer bara auðveldustu leiðina (sem var svo ekki auðveld heldur erfiðari en að takast á við líðanina sem fyrir var).
Ég vildi óska að ég gæti sagt að bataferlið eftir nauðgun sé stutt en það er alls ekki þannig.  Þetta er langhlaup og maður tekur bara eitt skref í einu.
Þetta er samt svo sannarlega hægt.

Ef þú ert á byrjunarstigi í bata þínum, vil ég segja þér að þú munt brosa aftur og þér á eftir að líða betur og átt eftir að sjá bjarta framtíð þó að það líti kannski ekki út fyrir það í dag.

Ég held fast í þessi orð þar sem ég veit núna að þau eru sönn og ég  komst frá því að vilja deyja yfir í það að í dag er ég að skapa framtíðarplön mín og hamingju.
Ef ég get það, þá getur þú það.

María

Hér má sjá allar færslur Maríu.

 

Leave a Reply

Pin It on Pinterest

Share This